Fótbolti

Siggi Höskulds um 9-0 tapið í Víkinni: Þrusu gott fyrir okkur

Atli Arason skrifar
Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis.
Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis. Stöð 2 Sport

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, telur að 9-0 skellurinn sem liðið fékk á móti Víkingi í Bestu-deildinni þann 7. september hafi verið góður fyrir Leikni, þar sem liðið sótti sex stig af sex mögulegum í næstu tveimur leikjum þar á eftir.

„Ég held að þessi leikur hafi hjálpað okkur mjög mikið. Við vorum búnir að halda boltanum illa í mörgum leikjum á undan og við vildum fara öfuga leið í þessum leik. Eftiráhyggja þá held ég að þetta hafi verið þrusu gott fyrir okkur,“ sagði Sigurður í viðtali við Stöð 2.

Eftir 9-0 tapið gegn Víking kom 1-0 sigur á Val á heimavelli áður en liðið vann ÍA 1-2 á útivelli í lokaumferðinni.

„Þetta er mikið tilfinningasport og við höfum verið að reyna að stilla okkur af tilfinningalega og það hefur gengið rosalega vel. Hvernig leikmennirnir brugðust við mótbyr í þessum leik [gegn Víking], hvernig þeir stóðu saman og gáfust aldrei upp. Þeir héldu leikplaninu og það var enginn að skammast í hvorum öðrum. Ég var virkilega stoltur af liðinu eftir leik, margt sem við gerðum vel og svo var maður ofboðslega stoltur af stuðningnum í stúkunni.“

Það vakti athygli viðtalið sem Sigurður fór í eftir níu marka tapið gegn Víkingi þar sem hann sagðist vera stoltur af frammistöðu liðsins, þegar Leiknir jafnaði stærsta tap í sögu efstu deildar.

„Við fóum inn með ákveðið leikplan sem við þjálfarnir settum upp. Mér leið aldrei vandræðalega á hliðarlínunni. Ég hlakkaði eiginlega bara til þess að fara í viðtalið eftir leik og verja þessa ákvörðun að spila svona. Við áttum marga góða kafla í leiknum,“ sagði Sigurður sem lagði áherslu á það í leikhlé að leikmenn sínir héldu sama leikplani áfram, þrátt fyrir stöðuna í leiknum.

„Það er 5-0 í hálfleik og allt gekk upp hjá Víkingum. Ég sagði í hálfleiknum við strákanna að ekki yrði skemmtilegt fyrir þá að koma inn í klefa eftir leik ef þeir myndu fara út af leikplaninu. Þeir hlýddu því og fylgdu því,“ sagði Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis. Viðtalið við Sigurð í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Siggi Höskulds um 9-0 tapið í Víkinni: Þrusu gott fyrir okkur

Tengdar fréttir

Þakkar fyrir ógleymanlegan stuðning eftir útreiðina í Víkinni

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis í Reykjavík, setti inn færslu á samfélagsmiðilinn Twitter í morgun eftir 9-0 tap liðs hans fyrir Íslands- og bikarmeisturum Víkings í Bestu deild karla í gærkvöld. Hann þakkar fyrir stuðning úr stúkunni við svo erfiðar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×