Fótbolti

Fengu matar­eitrun í eða á leiðinni heim frá Mol­dóvu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Sheriff og Manchester United í Evrópudeildinni.
Úr leik Sheriff og Manchester United í Evrópudeildinni. MB Media/Getty Images

Manchester United vann 2-0 útisigur á Sheriff Tiraspol ytra í Evrópudeildinni á fimmtudaginn var. Fjöldi leikmanna gat hins vegar ekki mætt til æfinga á föstudegi né laugardegi vegna matareitrunar.

Leikurinn fór ekki fram í Transnistríu þar sem Sheriff er staðsett heldur í Kisínev, höfuðborg Moldóvu. Vann Man United nokkuð þægilegan 2-0 sigur þar sem Jadon Sancho skoraði fyrra markið og Cristiano Ronaldo skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni með marki úr vítaspyrnu.

Eftir leik stukku leikmenn sem og starfslið upp í einkaþotu og héldu aftur til Englands. Á föstudeginum, degi eftir leik, fór magakveisa að herja á marga þá sem höfðu farið til Moldóvu. Um var að ræða bæði leikmenn og starfsmenn félagsins.

Frétt enska götublaðsins The Sun segir að alls hafi tólf einstaklingar orðið veikir og þeir leikmenn sem veikir urðu hafi ekki treyst sér á æfingu á föstudeginum. Sumir misstu einnig af æfingu á laugardeginum. Nú vinnur félagið hörðum höndum í að reyna komast að því hvar matareitrunin hafi átt sér stað. Hvort það hafi verið í Moldóvu eða í fluginu á leiðinni heim til Englands.

Manchester United lék ekki í ensku úrvalsdeildinni um helgina og því kom eitrunin ekki að sök. Liðið er sem stendur í 5. sæti með 12 stig að loknum sex leikjum.


Tengdar fréttir

Ron­aldo komst á blað er Man Utd vann í Mol­dóvu

Manchester United er komið á blað í Evrópudeildinni í fótbolta þökk sé 2-0 sigri ytra á Sheriff Tiraspol. Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×