Erlent

Methafi í samfelldri geimdvöl allur

Kjartan Kjartansson skrifar
Valeríj Poljakov með Meyjarhofið í Aþenu í bakgrunni í október árið 1995, um hálfu ári eftir að hann sneri aftur til jarðar eftir langdvöl sína um borð í Mír.
Valeríj Poljakov með Meyjarhofið í Aþenu í bakgrunni í október árið 1995, um hálfu ári eftir að hann sneri aftur til jarðar eftir langdvöl sína um borð í Mír. AP/Aris Saris

Rússneski geimfarinn Valeríj Poljakov sem á metið yfir lengstu samfelldu dvöl í geimnum er látinn, áttræður að aldri. Poljakov dvaldi í sovésku geimstöðinni Mír á braut um jörðu í rúma 437 daga samfleytt á tíunda áratug síðustu aldar.

Rússneska geimstofnunin Roscosmos greindi frá andláti Poljakov án þess að gefa upp dánarorsök hans í dag. Metdvöl Poljakov hófst þegar honum var skotið á loft með Sojúz-geimferju 8. janúar árið 1994. Ferðalagið til Mír tók tvo daga. Um borð í geimstöðinni fór Poljakov fleiri en sjö þúsund hringi í kringum jörðina áður en hann sneri aftur til jarðar 22. mars árið 1995.

Þegar Poljakov lenti á jörðinni neitaði hann að láta bera sig út úr geimferjunni þrátt fyrir að hafa dvalið svo lengi í þyngdarleysi geimstöðvarinnar. Þess í stað var hann studdur úr úr ferjunni og gekk hann á eigin fótum að bifreið sem flutti hann af lendingarstaðnum.

AP-fréttastofan segir að Poljakov, sem var læknismentaður, hafi viljað sýna að mannslíkaminn réði við langdvöl í geimnum. Hann hafði áður eytt 288 dögum í geimnum frá 1988 til 1989.

Met Poljakov hefur enn ekki verið slegið. Sá sem komst næst metinu var Rússinn Sergei Avdejev sem dvaldi í Mír í rúma 379 daga frá 1998 til 1999.

Sá jarðarbúi sem hefur dvalið lengst í geimnum er Rússinn Gennadíj Padalka. Í heildina var hann í geimnum í rúma 878 daga í fimm leiðöngrum á geimfaraferli sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×