Fótbolti

Fjölskyldan stjörf er hann fékk rautt eftir tuttugu sekúndna frumraun

Sindri Sverrisson skrifar
Shoya Nakajima virtist varla trúa eigin augum þegar hann var rekinn af velli en mamma hans brast í grát.
Shoya Nakajima virtist varla trúa eigin augum þegar hann var rekinn af velli en mamma hans brast í grát. Skjáskot/BEIN

Japanski landsliðsmaðurinn Shoya Nakajima átti sannkallaða martraðarbyrjun í fyrsta heimaleik sínum fyrir tyrkneska liðið Antalyaspor.

Nakajima var sendur inn á til að hjálpa sínu liði í erfiðum leik gegn liði Birkis Bjarnasonar, Adana Demirspor, eftir sextíu mínútna leik.

Japaninn náði hins vegar bara að vera inni á vellinum í um 20 sekúndur áður en hann var rekinn af velli fyrir tæklingu, eins og sjá má hér að neðan.

Dómarinn ætlaði að vísu í fyrstu aðeins að sýna Nakajima gult spjald en eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi lyfti hann rauða spjaldinu. Þar með voru leikmenn Antalyaspor aðeins níu gegn tíu, því Soner Aydogdu hafði fengið rautt spjald strax á áttundu mínútu og gestirnir misst mann af velli rétt fyrir hálfleik. Liðsfélagar Birkis, sem sat á varamannabekknum, unnu að lokum auðveldan 3-0 sigur.

Fjölskylda Nakajima var á meðal áhorfenda í fyrsta heimaleiknum hans og tyrknesku sjónvarpsmennirnir voru búnir að finna hana þegar rauða spjaldið fór á loft.

Í stað þess að geta sýnt stolta móður og aðra fjölskyldumeðlimi fylgdist fjölskyldan stjörf með því sem á gekk og á endanum grúfði móðirin andlitið í höndum sér.

Nakajima, sem er 28 ára, kom ókeypis til Antalyaspor eftir að hafa orðið samningslaus hjá portúgalska félaginu Portimonense í sumar. Hann hefur einnig spilað með Porto, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar, og heima í Japan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.