Fótbolti

Alexandra og stöllur á toppinn með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexandra (önnur til vinstri í efri röð) byrjar vel á Ítalíu.
Alexandra (önnur til vinstri í efri röð) byrjar vel á Ítalíu. Twitter@ACF_Womens

Alexandra Jóhannsdóttir spilaði allan leikinn þegar Fiorentina vann 2-1 sigur á Parma í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Sigurinn lyftir Fiorentina upp fyrir Juventus og í toppsæti deildarinnar.

Lið Alexöndru hefur byrjað tímabilið vel en þurfti sigur í dag til að komast aftur á topp deildarinnar. Leikurinn gat vart byrjað betur en strax á þriðju mínútu fékk heimaliðið vítaspyrnu. Zsanett Kajan setti boltann í netið og Fiorentina komið 1-0 yfir.

Tókst heimaliðinu ekki að láta kné fylgja kviði og var staðan enn 1-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Snemma í þeim síðari jafnaði Melania Martinovic fyrir Parma en Michela Catena svaraði um hæl og Fiorentina komið 2-1 yfir þegar rúmur hálftími lifði leiks.

Reyndist það sigurmark leiksins og lokatölur 21- Fiorentina í vil. Við það fór liðið upp fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur og liðsfélaga hennar í meistaraliði Juventus og í toppsætið með níu stig eftir þrjá leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.