Fótbolti

Jamaíka kynnir Heimi sem nýjan landsliðsþjálfara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir Hallgrímsson er mættur til Jamaíka.
Heimir Hallgrímsson er mættur til Jamaíka. VÍSIR/VILHELM

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, var í kvöld kynntur sem nýr landsliðsþjálfari karlaliðs Jamaíka. Fyrr í vikunni var svo gott sem búið að staðfesta að Heimir væri að taka við og nú hefur opinberlega verið kynntur sem næsti þjálfari liðsins.

Heimir, sem er 55 ára, hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann hætti hjá Al Arabi í Katar fyrir rúmu ári síðan. Hann þjálfaði áður íslenska landsliðið á árunum 2011 til 2018 og fór með því á EM 2016 og HM 2018 áður en hann ákvað að kveðja.

Heimir mætir með tvo góðkunningja sína til Jamaíka en um er að ræða menn sem störfuðu með honum hjá íslenska landsliðinu. Það eru þeir Guðmundur Hreiðarsson og Sebastian Boxleitner. Fyrst var greint frá því að Helgi Kolviðsson væri einnig meðal þeirra sem myndu fylgja Heimi til Jamaíka en svo er ekki.

Heimir var ekki lengi að láta til sín taka en hann hefur kallað fyrirliðann Andre Blake inn í leikmannahóp liðsins en hann hafði opinberlega gagnrýnt knattspyrnusamband landsins. Það virðist nú vera vatn undir brúnna og Heimir er tilbúinn að leyfa fyrirliðanum að njóta vafans. 

Jamaíka er sæti fyrir ofan Ísland á heimslista FIFA, í 62. sæti. Liðið endaði í 6. sæti í úrslitakeppni Mið- og Norður-Ameríku um sæti á HM en þrjú efstu liðin komust á mótið og liðið í 4. sæti í umspil.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Dæmi um fjármálamisferli hjá jamaíska sambandinu

Strembnar vinnuaðstæður kunna að taka við Heimi Hallgrímssyni þegar hann tekur við sem landsliðsþjálfari Jamaíku. Ámælisverð fjármálastjórn hefur loðað við knattspyrnusambandið í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×