Innlent

VR í hart við Eflingu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Alþýðusamband Íslands verst fyrir hönd Eflingar en Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR gegnir varaformennsku í ASÍ.
Alþýðusamband Íslands verst fyrir hönd Eflingar en Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR gegnir varaformennsku í ASÍ. Vísir/Vilhelm

VR hefur stefnt stéttarfélaginu Eflingu vegna uppsagnar fyrrverandi starfsmanns Eflingar. Málið verður tekið fyrir í Félagsdómi hinn 11. október.

Mbl.is greinir frá.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Efling megi búast við sektum vegna uppsagnarinnar. Þá sé málið einnig höfðað til viðurkenningar.

Starfsmaðurinn sem um ræðir, Gabríel Benjamin, var trúnaðarmaður VR innan Eflingar og starfaði þar í tæpt ár. Gabríel segir í samtali við fréttastofu að málið snúist um hvort að það, að segja upp trúnaðarmanni með hópuppsögn, standist lög.

„Í þessu máli hefur VR staðið algerlega að baki mér. VR auðvitað sér um allan málskostnað og hefur metið málið sem slíkt að þarna þurfi að kanna lagalegan rétt. Þetta er eitthvað sem er miklu stærra en ég, miklu stærra en einstakar persónur,“ segir Gabríel og bætir við að málið snúist í raun aðeins um hvort leiðin, sem farin hafi verið við uppsögn hans sem trúnaðarmanns, hafi staðist lög. 

Gabríel sagði í viðtali við fréttastofu fyrr á árinu að Sólveigu Önnu hafi tekist að gengisfella tíu ára starf innan verkalýðshreyfingarinnar með hópuppsögn - sem ekkert samráð hafi verið haft um. „Mér finnst þetta gífurlega gróft og óforskammað. Ég sé ekki tilganginn með þessu,“ segir Gabríel Benjamín í viðtalinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×