Þýsku meistararnir kláruðu Börsunga í endurkomu Lewandowski

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski náði ekki að skora gegn sínum gömlu félögum í kvöld.
Robert Lewandowski náði ekki að skora gegn sínum gömlu félögum í kvöld. Adam Pretty/Getty Images

Markakóngurinn Robert Lewandowski snéri aftur til München í kvöld þegar Bayern tók á móti Barcelona í sankölluðum stórleik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Tvö mörk snemma í síðari hálfleik skiluðu heimamönnum 2-0 sigri.

Heimamenn í Bayern voru þarna að taka á móti einum mesta markaskorara félagsins frá upphafi, en Robert Lewandowski gekk í raðir Börsunga frá Bayern í sumar.

Ekki tókst pólsku markamaskínunni að setja mark sitt á leikinn, en markalaust var þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki nema um fimm mínútna gamall þegar heimamenn í Bayern tóku forystuna þegar Lucas Hernandez skallaði hornspyrnu Joshua Kimmich í netið.

Aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Leroy Sane kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Jamal Musiala og brekkan orðin brött fyrir gestina.

Þeim tókst hins vegar ekki að minnka muninn og hleypa spennu í leikinn og niðurstaðan því 2-0 sigur Bayern München. Heimamenn í Bayern eru nú með sex stig eftir tvær umferðir á toppi C-riðils, þremur stigum meira en Barcelona sem situr í öðru sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira