Íslenski boltinn

Ívar skall harkalega á stöngina: „Ætlarðu að sýna þetta?“

Sindri Sverrisson skrifar
Ívar Örn Árnason skall illa saman við stöngina og engdist um af kvölum í stutta stund.
Ívar Örn Árnason skall illa saman við stöngina og engdist um af kvölum í stutta stund. Stöð 2 Sport

Ívar Örn Árnason hefur spilað frábærlega í vörn KA í sumar en hann lenti í slæmum árekstri við aðra stöngina á marki Breiðabliks í stórleiknum í Bestu deildinni í fótbolta á sunnudaginn.

„Ahh, ætlarðu að sýna þetta?“ spurði Baldur Sigurðsson í Stúkunni á Stöð 2 Sport, áður en Guðmundur Benediktsson ákvað að birta myndskeið af árekstri Ívars við stöngina.

„Þetta er einhver óþægilegasti árekstur sem ég hef séð. Ég ákvað að taka verkjalyf bara eftir að hafa séð þetta,“ sagði Guðmundur en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan - Ívar klessti á stöngina

Hinn 26 ára gamli Ívar hefur eignað sér stöðu í miðri vörn KA í sumar og borið fyrirliðabandið í undanförnum leikjum, þegar þeir Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árni Aðalsteinsson hafa ekki verið í byrjunarliðinu.

Ívar hefur leikið 20 deildarleiki í sumar og skorað eitt mark, og hann átti sinn þátt í 2-1 sigrinum gegn Breiðabliki á sunnudag sem styrkti stöðu KA heldur betur í 3. sæti deildarinnar. Liðið er tveimur stigum á eftir Víkingi og átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks, en átta stigum á undan næsta liði sem er Valur.

Tvö efstu lið deildarinnar fá Evrópusæti og sömuleiðis liðið í 3. sæti ef að Víkingur vinnur FH í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 1. október.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×