Ísland mætir sigurvegaranum úr einvígi Portúgals og Belgíu og fer leikurinn fram 11. október. Ísland þarf að spila á útivelli, hvort sem það verður í Portúgal eða Belgíu.
Fyrri hluti umspilsins fer fram 6. október og það verður því aðeins ljóst þann dag hvoru liðanna Ísland mætir.
Í umspilinu er aðeins um stakan leik að ræða í hverju einvígi, en ekki heima- og útileiki, og var dregið um það hvaða lið fengju heimaleik.
Svona lítur Evrópuumspilið út, þar sem leikið er um tvö örugg sæti á HM og eitt sæti í aukaumspili í Eyjaálfu í febrúar:
Fyrri hluti umspils:
- Skotland - Austurríki
- Wales - Bosnía
- Portúgal - Belgía
Seinni hluti umspils:
- Portúgal/Belgía - Ísland
- Skotland/Austurríki - Írland
- Sviss - Wales/Bosnía
Lið sem talin eru upp á undan eiga heimaleik.
Ísland leikur í umspilinu eftir að hafa tapað gegn Hollandi í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn, 1-0, með marki í uppbótartíma.
Aðeins tveir af þremur sigurvegurum í seinni hluta umspilsins fara beint á HM. Þriðji sigurvegarinn, sá með sísta árangurinn úr undankeppninni og seinni hluta umspilsins, fer í sérstakt aukaumspil í febrúar með liðum úr öðrum heimsálfum.
Ef að Ísland vinnur umspilsleikinn í venjulegum leiktíma eða framlengingu fer liðið beint á HM. Ef að liðið vinnur í vítaspyrnukeppni er enn hætta á að liðið þurfi að fara í aukaumspilið í Eyjaálfu.
Ef að Ísland tapar umspilsleiknum er liðið einfaldlega úr leik og HM-draumurinn úr sögunni.
Níu Evrópuþjóðir komnar á HM
Nú þegar hafa 27 þjóðir tryggt sér sæti á HM, sem í fyrsta sinn verður með 32 þátttökuþjóðum. Eftir Evrópuumspilið í október verða aðeins þrjú sæti laus, sem spilað verður um í aukaumspilinu í febrúar þar sem tíu lið spila í þremur umspilsmótum.
Þessi lið eru komin inn á HM:
- Svíþjóð, Spánn, Holland, England, Danmörk, Noregur, Ítalía, Þýskaland og Frakkland, sem öll unnu sinn riðil í undankeppninni í Evrópu.
- Ástralía og Nýja-Sjáland, sem gestgjafar.
- Kína, Suður-Kórea, Japan, Filippseyjar og Víetnam frá Asíu
- Suður-Afríka, Marokkó, Sambía og Nígería frá Afríku.
- Bandaríkin, Kanada, Jamaíka og Kosta Ríka frá Mið- og Norður-Ameríku.
- Brasilía, Kólumbía og Argentína frá Suður-Ameríku.