Fótbolti

Fær ekki að spila með landsliðinu meðan hann leikur í Rússlandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Normann mun ekki klæðast norsku treyjunni í bráð.
Normann mun ekki klæðast norsku treyjunni í bráð. David Fitzgerald/Sportsfile via Getty Images

Norska knattspyrnusambandið hefur bannað Mathias Normann frá þátttöku í landsleikjum á meðan hann er á snærum rússnesks fótboltafélags. Þetta er vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Normann var samningsbundinn Rostov í Rússlandi en var á láni hjá Norwich City á Englandi á síðustu leiktíð. Hann tók nýverið ákvörðun um að fara á láni til Dynamo Moskvu í Rússlandi en hann var orðaður við önnur félög í sumar, þar á meðal Leicester City á Englandi.

Ákvörðun hans að spila í rússnesku deildinni mun hafa áhrif á landsliðsferil hans en norskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að stjórn norska knattspyrnusambandsins hafi komist að samkomulagi við landsliðsþjálfarann Ståle Solbakken um að útiloka Normann frá vali í landsliðið á meðan hann hefur sitt lífsviðurværi í Rússlandi.

Lisa Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandsins.Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Þetta er til að sýna samstöðu með öðrum Evrópuríkjum gegn innrás Rússa í Úkraínu.

„Almennt er það ekki hlutverk knattspyrnusambandsins að skipta sér af því hvaða félög leikmenn okkar spila fyrir en aðstæðurnar eru mjög sérstakar. Norsk og evrópsk knattspyrnusambönd eru samtaka um að setja þrýsting á Rússa vegna hernaðar þeirra,“ hafa norskir fjölmiðlar eftir Lisu Klaveness, forseta norska knattspyrnusambandsins.

Normann er 26 ára og hefur leikið tólf landsleiki frá 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×