Fótbolti

Blóðtaka fyrir hollenska liðið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Beerensteyn er veik og spilar ekki í kvöld.
Beerensteyn er veik og spilar ekki í kvöld. Filippo Alfero - Juventus FC/Juventus FC via Getty Images

Holland verður án framherjans Lineth Be­eren­steyn í leiknum mikilvæga við Ísland í kvöld. Hún er að glíma við veikindi.

Hollenska knattspyrnusambandið tilkynnti um tíðindin á samfélagsmiðlum í dag en Beerensteyn er samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Juventus. Líkt og Sara gekk hún í raðir Ítalíumeistaranna í sumar.

Hún lék áður með Bayern München frá 2017 til 2022 og var þar samherji Glódísar Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur. Beerensteyn er 25 ára gamall framherji og hefur skorað 20 mörk í 85 landsleikjum fyrir hollenska landsliðið, þar af voru fimm leikir í undankeppni HM hvar hún skoraði tvö mörk.

Holland er einnig án Lieke Martens, leikmanns PSG, en það virðist sem framherjinn Vivianne Miedema sé í fullu fjöri. Hún glímdi við veikindi í aðdraganda leiksins en spilaði í æfingaleik Hollands gegn Skotlandi í síðustu viku og skoraði annað mark Hollands í 2-1 sigri.

Ísland leiðir riðilinn fyrir leik kvöldsins og dugar jafntefli til að enda í efsta sæti hans og fara þar af leiðandi beint á HM. Vinni Holland endar Ísland í öðru sæti og fer í umspil.

Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×