Innlent

„Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er“

Snorri Másson skrifar

Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt það er að fjórtán hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp störfum á bráðamóttöku Landspítala. Þetta segja tveir hjúkrunarfræðinganna. Uppsögn var að þeirra sögn síðasta úrræðið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sagt er frá því að hjúkrunarfræðingar segi starfi sínu lausu vegna álags á Landspítalanum. En í þetta skiptið er það verulegur hluti hjúkrunarfræðinga á sjálfri bráðamóttökunni.

„Það hefur ekkert verið hlustað, þannig að nú bara er komið nóg,“ sagði Soffía Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur í samtali við fréttastofu. 

Fjórtán eru að hætta og það eru ekki nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar, að sögn Berglindar. „Þær sem eru að fara, þetta eru það sem við köllum naglarnir, sleggjurnar á bráðamóttökunni, þær eru farnar. Við segjum bara liggur við: Guð blessi Ísland. Þetta er mjög alvarlegt. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt þetta er,“ segir Berglind.

Berglind Gestsdóttir og Soffía Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingar hafa unnið í átta ár á bráðamóttöku Landspítala en sögðu skilið við vinnustaðinn um mánaðamótin.Vísir/Egill

Hjúkrunarfræðingarnir gefa lítið fyrir ummæli Runólfs Pálssonar forstjóra Landspítala um að betri staða sé í vændum og að unnið sé að úrbótum. Það sé orðið of seint. Þær tilkynntu um uppsögn sína í febrúar, þannig að þetta hefur lengi vofað yfir.

„Jú, svo núna segir hann þetta í september, þannig að ég hef enn þá trú og ég bíð og ég vona,“ segir Soffía. „Við höfum bara heyrt þetta áður,“ segir Berglind.

Það sem þyrfti væri að sögn hjúkrunarfræðinganna hærri laun og fleira starfsfólk. Ella, segja þær, halda fleiri á önnur mið.

„Það er slegist um okkur út um allt. Það vantar hjúkrunarfræðinga alls staðar. Og hjúkrunarfræðingar sem eru búnir að vinna á bráðamóttökunni, geta unnið alls staðar,“ segir Soffía. Að óbreyttu taka aðrar fjórtán uppsagnir gildi næstu mánaðamót.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×