Fótbolti

Hallbera og fyrstu meistararnir heiðruð

Sindri Sverrisson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir er hætt að munda vinstri fótinn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar en það gerði hún í yfir 130 A-landsleikjum.
Hallbera Guðný Gísladóttir er hætt að munda vinstri fótinn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar en það gerði hún í yfir 130 A-landsleikjum. Getty/Tim Goode

Fyrir leik og í hálfleik leiks Íslands og Hvíta-Rússlands á Laugardalsvelli í dag verða Hallbera Guðný Gísladóttir og fyrstu Íslandsmeistararnir í fótbolta kvenna, FH-konur, heiðraðar.

Hallbera, sem verður 36 ára í þessum mánuði, lagði takkaskóna á hilluna eftir Evrópumótið í sumar en hún hafði verið hluti af A-landsliði kvenna síðastliðin fjórtán ár og spilað 131 A-landsleik.

Hún lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Póllandi í mars 2008 og spilaði á þremur stórmótum fyrir Ísland; EM 2013, 2017 og 2022.

Hallbera verður heiðruð fyrir leikinn í dag fyrir framlag sitt til knattspyrnu. Í hálfleik verða svo FH-konur einnig heiðraðar, í tilefni þess að 50 ár eru liðin síðan að þær urðu Íslandsmeistarar í fótbolta, fyrstar kvenna á Íslandi.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, mun afhenda Margréti Brandsdóttur, fyrir hönd FH, blómvönd auk þess sem allir leikmenn fá mynd af liðinu frá 1972 sem tekin var af Helga Dan.

Í liði FH árið 1972 voru Birna Bjarnason, Brynja Guðmundsdóttir, Erna Flygenring, Guðrún Júlíusdóttir, Gunnþórunn Gunnarsdóttir, Gyða Úlfarsdóttir, Katrín Danivalsdóttir, Kristjana Aradóttir, Margrét Brandsdóttir, Ólöf Guðmundsdóttir, Sesselja Friðþjófsdóttir, Sigfríð Sigurgeirsdóttir, Svanhvít Magnúsdóttir, Anna Lísa Sigurðardóttir, Sigrún Sigurðardóttir og Sædís Arndal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×