Fótbolti

Guðlaugur og félagar unnu meistarana í frumraun Benteke

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðlaugur Victor var að vonum ánægður í leikslok.
Guðlaugur Victor var að vonum ánægður í leikslok. D.C. United

D.C. United, botnlið Austurdeildarinnar í MLS-deildinni vestanhafs, vann sinn fyrsta sigur síðan í lok júlí er það heimsótti New York City í nótt. Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn.

D.C. United hefur átt vandasamt tímabil og skipti um þjálfara í lok júlí þegar enska goðsögnin Wayne Rooney tók við stjórnartaumunum. Hann vann fyrsta leik, 2-1 gegn Orlando, þann 31. júlí en liðið hefur síðan tapað fimm leikjum og gert eitt jafntefli.

Hann var því kærkominn, 2-1 sigur liðsins á New York City í nótt. New York er í eigu City Group sem einnig á Manchester City á Englandi, og liðið varð MLS-meistari á síðustu leiktíð.

Framherjinn Ola Kamara og Steven Birnbaum skoruðu mörk gestanna frá Washington í leiknum en þar kom Belginn Christian Benteke inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik eftir skipti sín frá Crystal Palace á Englandi.

Fagnaðarlætin voru mikil í leikslok og sást á Guðlaugi Victori í myndskeiði sem félagið birti eftir leik að honum var létt, líkt og öðrum leikmönnum liðsins, eftir strembinn ágúst-mánuð.

D.C. United er áfram á botni Austurdeildarinnar með 25 stig, sex á eftir Chicago Fire sem er þar fyrir ofan, en New York City er í fjórða sæti með 45 stig.

Houston Dynamo vann þá 2-1 sigur á Los Angeles FC í Vesturdeildinni en þar var Þorleifur Úlfarsson frá vegna meiðsla og fékk því ekki tækifæri til að kljást við Giorgio Chiellini, miðvörð Los Angeles-liðsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.