Fótbolti

Innbrotsþjófar kjálkabrutu Aubameyang og skiptin til Chelsea í uppnámi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Barcelona.
Pierre-Emerick Aubameyang gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Barcelona. getty/David S. Bustamante

Pierre-Emerick Aubameyang, leikmaður Barcelona, er kjálkabrotinn eftir að innbrotsþjófar réðust á hann á heimili hans. Þetta setur möguleg félagaskipti hans til Chelsea í uppnám.

Árla morguns á mánudaginn brutust vopnaðir fjórir menn inn á heimili Aubameyangs. Þeir réðust á gabonska framherjann og kjálkabrutu hann með járnstöng fyrir framan eiginkonu hans og tvö börn.

Aubameyang þarf væntanlega að gangast undir aðgerð og gæti verið frá keppni í fjórar til fimm vikur. 

Hann hefur verið sterklega orðaður við Chelsea sem vantar sárlega framherja. Aubameyang gekk í raðir Barcelona í janúar eftir að samningi hans við Arsenal var rift. Eftir komu Roberts Lewandowski hefur Barcelona þó ekki jafn mikla þörf fyrir Aubameayng og áður og þá þarf félagið að selja leikmenn til að laga bága fjárhagsstöðu þess. Félagaskiptaglugganum verður lokað á morgun.

Eftir innbrotið flutti Barcelona Aubameyang og fjölskyldu hans á fimm stjörnu hótel. Þá var þeim boðið upp á sálfræðiaðstoð til að vinna úr áfallinu.

Aubameayng, sem er 33 ára, hefur skorað þrettán mörk í 24 leikjum fyrir Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×