Fótbolti

Fylkir tryggði sér sæti í Bestu-deildinni með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson og Atli Arason skrifa
Fylkir vann stórsigur í dag og tryggði sér sæti í deild þeirra bestu.
Fylkir vann stórsigur í dag og tryggði sér sæti í deild þeirra bestu. Vísir/Hulda Margrét

Fylkismenn tryggðu sér sæti í Bestu-deild karla á næsta tímabili er liðið vann öruggan sigur gegn Gróttu í dag, 5-1.

Mathias Christensen kom heimamönnum í Fylki í forystu strax á tíundu mínútu áður en Benedikt Garðarsson bætti öðru marki liðsins við um stundarfjórðungi síðar.

Christensen var svo aftur á ferðinni stuttu fyrir hálfleik og staðan því 3-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Christensen fullkomnaði svo þrennu sína snemma í síðari hálfleik áður en Óskar Borgþórsson breytti stöðunni í 5-0 á 58. mínútu.

Luke Rae klóraði í bakkann fyrir gestina þremur mínútum síðar og þar við sat. Niðurstaðan 5-1 sigur Fylkis og sæti í Bestu-deild karla á næsta tímabili þar með tryggt.

Fylkir situr nú á toppi Lengjudeildarinnar með 45 stig þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir, 14 stigum meira en Grótta sem situr í fjórða sæti. Grótta á enn veika von um sæti í efstu deild, en þá þarf allt að ganga upp í seinustu umferðunum.

Í öðrum leikjum dagsins vann Fjölnir öruggan 4-1 sigur gegn Selfyssingum, Grindavík og Vestri gerðu 2-2 jafntefli, HK vann 1-3 útisigur gegn Kórdrengjum og KV vann 1-2 sigur gegn Þrótti Vogum. Norður á Akureyri gerðu Þór og Afturelding svo markalaust jafntefli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.