Íslenski boltinn

Svona virkar úrslitakeppnin: Fjórskipt barátta í lokin

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik er með pálmann í höndunum fyrir lokakaflann í Bestu deildinni en allt getur gerst í úrslitakeppninni.
Breiðablik er með pálmann í höndunum fyrir lokakaflann í Bestu deildinni en allt getur gerst í úrslitakeppninni. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Harkaleg fallbarátta, hnífjöfn keppni um Evrópupeninga og slagurinn um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn er það sem er fram undan í Bestu deild karla í fótbolta nú þegar styttist í fyrstu úrslitakeppnina í sögu efstu deildar á Íslandi.

Aðeins fjórar umferðir eru eftir af hefðbundnu deildakeppninni en að þeim loknum verður deildinni skipt í tvennt; efri og neðri hluta, og leiknar fimm aukaumferðir. Liðin sem lenda í neðri hlutanum geta þá best náð 7. sæti en liðin sem enda í efri hlutanum í versta falli endað í 6. sæti.

Þetta þýðir að baráttan í á lokasprettinum er fjórskipt. Barist er um Íslandsmeistaratitilinn, Evrópusætin, sæti í efri helmingi deildarinnar og um áframhaldandi sæti í efstu deild.

Staðan í Bestu deild karla þegar fjórar umferðir og frestaður leikur Víkings og Leiknis eru eftir fram að úrslitakeppni. Eftir þessa leiki verður deildinni skipt í tvo hluta.ksi.is
Svona raðast leikirnir í úrslitakeppninni. Liðið í 1. sæti áður en hún hefst leikur til dæmis heimaleiki við liðin í 6., 5. og 2. sæti, en útileiki við 3. og 4. sæti.

Liðin taka með sér þann stigafjölda sem þau hafa þegar náð inn í úrslitakeppnina. Í efri hlutanum leika svo liðin sem enda í 1., 2. og 3. sæti þrjá heimaleiki og tvo útileiki hvert, en hin þrjú liðin leika þrjá útileiki og tvo heimaleiki. 

Hreinn úrslitaleikur í lokin?

Liðið sem endar efst fyrir úrslitakeppnina spilar til dæmis heimaleiki sína við liðin sem voru þá í 6. og 5. sæti, en útileiki við 3. og 4. sæti, og endar svo á að mæta liðinu úr 2. sæti í lokaumferðinni. Það gæti því mögulega orðið hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Að sama skapi verður það þannig í neðri hlutanum að liðin í 7.-9. sæti fá einum fleiri heimaleiki en hin þrjú liðin.

Hér að neðan er blaðamaður búinn að skipta deildinni upp í þrennt, fyrir baráttuna á lokakaflanum, en auðvitað getur enn allt gerst og lið komist í aðra baráttu en hér segir.

Baráttan um efstu sætin

Fjögur efstu liðin í deildinni eru líklegust til að landa Íslandsmeistaratitlinum eða Evrópusæti.ksi.is

Blikar eru með pálmann í höndunum á toppnum og með sex stiga forskot á KA. Þó að Víkingar fengju þrjú stig gegn Leikni í frestuðum leik yrðu þeir enn sjö stigum á eftir Blikum.

Toppbaráttan snýst hins vegar einnig um Evrópusætin, sem annað hvort verða tvö eða þrjú. Það veltur á sigurvegara bikarkeppninnar. Ef að Breiðablik, Víkingur eða KA vinnur bikarinn og endar í öðru af tveimur efstu sætum deildarinnar mun 3. sæti deildarinnar duga til að fá Evrópupeningana mikilvægu.

  • Leikir fram að úrslitakeppni:
  • Breiðablik: Leiknir (h), Valur (h), KA (ú), ÍBV (h).
  • KA: Víkingur (h), Fram (ú), Breiðablik (h), Valur (ú).
  • Víkingur: KA (ú), ÍBV (h), Leiknir (h), Keflavík (ú), KR (h).
  • Valur: Fram (h), Breiðablik (ú), Leiknir (ú), KA (h).

Baráttan um sæti í efri hlutanum

Fram og Keflavík berjast um að komast upp í efri hlutann áður en deildinni verður skipt í tvennt.ksi.is

KR og jafnvel Stjarnan eiga enn á hættu að enda í neðri helmingi deildarinnar en það myndi þýða að þau næðu í besta falli 7. sæti á leiktíðinni. Ef að lið enda í neðri hlutanum skiptir ekki máli þó að þau safni á endanum fleiri stigum en lið úr efri hlutanum. Búið er að skipta deildinni upp og þau geta best náð 7. sæti.

Nýliðar Fram og Keflvíkingar anda í hálsmál KR-inga og eru í nokkuð þægilegri fjarlægð frá fallsætunum, þó allt geti gerst í úrslitakeppninni þegar neðri liðin leika innbyrðis.

  • Leikir fram að úrslitakeppni:
  • Stjarnan: ÍBV (ú), Keflavík (h), KR (ú), FH (h).
  • KR: FH (h), ÍA (ú), Stjarnan (h), Víkingur (ú).
  • Fram: Valur (ú), KA (h), ÍBV (ú), Keflavík (h).
  • Keflavík: ÍA (h), Stjarnan (ú), Víkingur (h), Fram (ú).

Fallbaráttan

Fallbaráttan er æsispennandi.ksi.is

Eftir sigur ÍA á ÍBV í síðustu umferð eru fjögur lið í bullandi fallbaráttu. Leiknir og FH fögnuðu sigrum í síðustu umferð og ómögulegt virðist að segja til um hvaða tvö lið munu á endanum kveðja deildina.

Ljóst er að að minnsta kosti eitt þessara liða fær þrjá heimaleiki í úrslitakeppninni í stað tveggja eins og neðstu þrjú liðin munu fá.

Leikjaniðurröðunin í neðri hlutanum er svo þannig að liðin sem enda í 11. og 12. sæti munu mætast í lokaumferð úrslitakeppninnar, á sama tíma og liðin í 9. og 10. sæti mætast, og liðin í 7.-8. sæti.

  • Leikir fram að úrslitakeppni:
  • ÍBV: Stjarnan (h), Víkingur (ú), Fram (h), Breiðablik (ú).
  • FH: KR (ú), Leiknir (ú), ÍA (h), Stjarnan (ú).
  • Leiknir: Breiðablik (ú), FH (h), Víkingur (ú), Valur (h), ÍA (ú).
  • ÍA: Keflavík (ú), KR (h), FH (ú), Leiknir (h).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×