Fótbolti

Vann EM og lagði skóna á hilluna

Atli Arason skrifar
Ellen White með Evrópumeistaratitilinn.
Ellen White með Evrópumeistaratitilinn. Getty Images

Enski framherjinn Ellen White gaf það út fyrr í dag að hún ætlar að leggja knattspyrnuskónna á hilluna og snúa sér að öðrum málum.

„Þetta hefur verið ein erfiðasta ákvörðun lífs míns en ákvörðun sem ég veit að er sú rétta fyrir mig. Þessa ákvörðun hefur mig alltaf dreymt um að taka á mínum eigin forsendum og þetta er minn tími til að kveðja fótboltann og fylgjast með næstu kynslóð skína,“ skrifaði White í hjartnæmri færslu á Twitter.

Í færslunni þakkar Ellen White öllum þeim sem lögðu hönd á plóg á hennar langa og farsæla knattspyrnuferli. White er 33 ára gömul en hún spilaði meðal annars með Chelsea, Arsenal og Manchester City á sínum ferli.

White er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi en sem knattspyrnukona hefur hún þurft að fara í gegnum alls konar mótlæti til að komast á þann stall sem hún er í dag sem ein sú besta sem hefur spilað leikinn. White hefur þrisvar verið valin sú besta á Englandi en enginn leikmaður, karla eða kvenna, hefur skorað fleiri mörk á stórmóti fyrir England heldur en Ellen White.

„Þú verður ekki að vera best/ur í einhverju til að gera drauma þína að veruleika, sjáðu bara mig. Dugnaður, metnaður og ástríða er frábær uppskrift. Ekki láta einhvern segja þér að þú getur ekki gert eitthvað. Mér var einu sinni sagt að ég gæti ekki spilað með strákum og myndi aldrei spila fyrir enska landsliðið. Nú er ég að leggja skónna á hilluna sem Evrópumeistari, með 113 landsleiki á bakinu og 52 mörk fyrir England,“ skrifaði White, en færsluna hennar í heild má sjá hérna að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×