Erlent

Þrír fangar á­kærðir vegna morðsins á James „Whit­ey“ Bul­ger

Atli Ísleifsson skrifar
James „Whitey“ Bulger á lögreglumyndum frá árinu 1953. Glæpaforinginn hélt hluta Boston í heljargreipum um árabil.
James „Whitey“ Bulger á lögreglumyndum frá árinu 1953. Glæpaforinginn hélt hluta Boston í heljargreipum um árabil. AP

Þrír hafa verið ákærðir vegna morðsins á hinum alræmda bandaríska glæpaforingja, James „Whitey“ Bulger. Hinn 89 ára Bulger fannst meðvitundarlaus í öryggisfangelsi í Vestur-Virginíu í október 2018 þar sem hann afplánaði dóm og var hann úrskurðaður látinn skömmu síðar.

Þrír fangar – þeir Fotios Geas, 55 ára, Paul J DeCologero, 48 ára og Sean McKinnon, 36 ára – hafa nú verið ákærðir vegna morðsins á Bulger.

Bulger, sem stýrði um árabil glæpasamtökum í Boston, var handtekinn í Kaliforníu árið 2011 eftir sextán ár á flótta frá yfirvöldum.

Hann var að afplána tvo lífstíðardóma vegna ellefu morða þegar ráðist var á hann með þeim afleiðingum að hann lést. Sama dag hafði hann verið fluttur í Hazelton-fangelsið í Vestur-Virginíu sem hýsir tæplega 1.400 fanga.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá ákærunum á hendur föngunum þremur í gær. Eru þeir Geas og DeCologero sakaðir um að hafa veitt Bulger fjölda áverka á höfði sem leiddu til dauða hans. Þá er McKinnon ákærður þar sem hann á að hafa borið ljúgvitni í málinu.

Bulger var á flótta undan FBI í heil sextán ár en var handtekinn í Kaliforníu árið 2011 eftir að íslensk kona sem bjó í næsta húsi við hann lét yfirvöld vita.

Bulger stýrði á sínum tíma glæpagenginu Winter Hill í suðurhluta Boston en var einnig sagður hafa verið uppljóstrari fyrir alríkislögregluna FBI. Glæpaferill hans var umfjöllunarefni kvikmyndanna Black Mass með Johnny Depp í aðalhlutverki og sömuleiðis The Departed sem hlaut Óskarsverðlaun sem besta mynd árið 2007.


Tengdar fréttir

Nágranninn hættulegasti glæpamaður Bandaríkjanna

Þann 22.júní árið 2011 var eftirsóttasti glæpamaður Bandaríkjanna handtekinn í íbúð sinni í Santa Monica vegna ábendingar frá íslenskri nágrannakonu hans. Það hefur kostað hugrekki enda ferill James Whitey Bulger blóði drifinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×