Fótbolti

Fylkir á toppinn eftir sigur í sjö marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fylkir vann sigur í markaleik í kvöld.
Fylkir vann sigur í markaleik í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Fimm leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld og var nóg af mörkum sem litu dagsins ljós. Fylkir lyfti sér á topp deildarinnar með 4-3 sigri gegn Selfyssingum og þá vann Fjölnir einnig 4-3 sigur gegn Grindavík.

Emil Ásmundsson kom Fylkismönnum yfir gegn Selfyssingum strax á fjórðu mínútu áður en Birkir Eyþórsson tvöfaldaði forystu heimamanna á 41. mínútu. Emil var svo aftur á ferðinni stuttu fyrir hálfleik þegar hann breytti stöðunni í 3-0.

Gary Martin og Valdimar Jóhannsson minnkuðu muninn fyrir Selfyssinga í 3-2 snemma í síðari hálfleik, en Birkir Eyþórsson gerði út um leikinn á 63. mínútu áður en Hrvoje Yokic klóraði í bakkann fyrir gestina á lokamínútu leiksins af vítapunktinum.

Niðurstaðan því 4-3 sigur Fylkis og sigurinn lyftir þeim á topp deildarinnar með 39 stig eftir 17 leiki, tveimur stigum meira en HK sem situr í öðru sæti. Selfyssingar sitja hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með 25 stig.

Fjölnir vann einnig 4-3 sigur er liðið tók á móti Grindavík þar sem gestirnir frá Grindavík komust í 0-2 eftir aðeins átta mínútur með mörkum frá Kenan Turudija og Aroni Jóhannssyni.

Dofri Snorrason minnkaði muninn fyrir Fylkismenn tveimur mínútum síðar áður en Hans Viktor Guðmundsson jafnaði metin fyrir hálfleik.

Kristófer Páll Viðarsson kom Grindvíkingum yfir á nýjan leik á 59. mínútu, en Viktor Andri Hafþórsson jafnaði metin sjö mínútum síðar.

Það var svo Hans Viktor Guðmundsson sem tryggði Fjölnismönnum 4-3 sigur með marki á 69. mínútu.

Fjölnismenn sitja nú í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig, tíu stigum meira en Grindavík sem situr í tíunda sæti.

Í öðrum leikjum kvöldsins vann Afturelding 4-1 sigur gegn KV, Kórdrengir lögðu Vestra 4-0 og Grótta vann 0-1 útisigur gegn Þrótti Vogum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.