Innlent

Hefur snúið við blaðinu og fær milda refsingu

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á málflutning verjanda mannsins.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á málflutning verjanda mannsins. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var á dögunum dæmdur til þrjátíu daga skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir auðgunarbrot. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hefði snúið lífi sínu til betri vegar síðan brotin voru framin.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa brotist inn á heimili í Reykjavík árið 2019 og stolið þaðan Macbook fartölvu, Iphone 10, bíllyklum að Ford Explorer bíl og fimm greiðslukortum.

Greiðslukortin nýtti hann til þess að taka út 120 þúsund krónur úr alls þremur hraðbönkum. Samkvæmt almennum hegningarlögum varða brot mannsins allt að sex ára fangelsi.

Maðurinn játaði sök í öllum ákæruliðum en lögmaður hans fór fram að honum yrði ekki gerð refsing en að öðrum kosti vægustu refsingar sem lög leyfa.

„Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur játað brot sín greiðlega fyrir dómi. Einnig er litið til þess sem kom fram í máli verjanda að ákærði sé búinn að taka á sínum málum, iðrist gjörða sinna og sé búinn að snúa lífi sínu til betri vegar,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þá var einnig vísað til þess að langt sé liðið síðan maðurinn framdi brotin og honum yrði ekki kennt um drátt á meðferð málsins.

Með vísan til framangreinds var maðurinn dæmdur til þrjátíu daga fangelsisrefsingar en fullnustu hennar frestað til tveggja ára, haldi hann almennt skilorð.

Þá var hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 95 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×