Innlent

Skellt í lás á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eldgos í Meradölum Fagradalsfjall 2022
Eldgos í Meradölum Fagradalsfjall 2022 Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Þeim sem ætla að skoða eldgosið í Meradölum á morgun verður snúið við þar sem svæðinu verður lokað vegna slæms veður sem ganga á yfir svæðið.

Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir svæðið frá klukkan 7 á morgun fram yfir hádegi. Spáð er suðaustan hvassviðri eða stormi og rigningu.

„Það verða allir stoppaðir sem ætla Suðurstrandarveginn og það verður talað við hvern og einn. Þeir sem ætla að laumast framhjá, þeir fá tiltal frá lögreglu og verður vísað í burtu af svæðinu,“ sagði Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu í beinni útsendingu frá Meradölum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr hraunflæði hefur mikill fjöldi hefur lagt leið sína að gosinu í dag og sagði Guðbrandur að hann teldi að sex til sjö þúsund manns hafi heimsótt svæðið í dag.

Nokkuð hefur verið fjallað um vinsældir þyrluferða á svæðið en samkvæmt tölum frá Isavia hafa um 125 þyrluferðir verið farnar frá Reykjavíkurflugvelli á hverjum degi undanfarna daga.

Dagurinn hefur gengið nokkuð stórslysalaust fyrir sig.

„En í dag verð ég nú að segja að flestir eru nokkuð vel búnir þó maður hafi séð mörg sorgleg dæmi samt,“ sagði Guðbrandur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×