Erlent

Lokuðu fólk inni í IKEA-verslun vegna út­setts við­skipta­vinar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Öryggisverðir reyndu að halda fólki inni en fólkið hafði betur að lokum líkt og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.
Öryggisverðir reyndu að halda fólki inni en fólkið hafði betur að lokum líkt og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Yfirvöld í Sjanghæ reyndu að loka IKEA-verslun í borginni eftir að í ljós kom að einstaklingur sem var útsettur fyrir Covid-19 smiti væri staddur inni í versluninni. Viðskiptavinir reyndu að brjóta sér leið út í stað þess að dúsa inni í versluninni.

Sex ára drengur í Sjanghæ greindist smitaður af Covid-19 á dögunum eftir að hann kom heim frá Tíbet. Í kjölfar þess var ráðist í ítarlega smitrakningu til þess að komast hjá því að veiran næði að breiða sér út en í Kína er enn sú stefna við lýði að veirunni þurfi að útrýma alveg. Eitt smit er einu smiti of mikið.

Í ljós kom að drengurinn hafði átt, það sem flokkast í Kína sem, náin samskipti við fjögur hundruð manns. Þá þurfti að rekja ferðir allra þessara einstaklinga og lokatalan er að 80 þúsund manns þurfa að fara í sóttkví og skimun.

Einn þessara fjögur hundruð var staddur í IKEA-verslun þegar kom í ljós að hann og drengurinn höfðu átt í samskiptum. Því var versluninni lokað og læsa átti alla viðskiptavini inni til þess að skima þá.

Gestir verslunarinnar voru ekki sáttir með þetta og reyndu að koma sér út til þess að komast hjá því að vera læstir inni í versluninni. Í myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá fólk troða sér fram hjá heilbrigðisstarfsfólki og brjóta upp hurðar sem öryggisverðir gættu.

Þeir sem hafa þurft að fara í sóttkví og einangrun í Sjanghæ hafa lengi kvartað yfir slæmum aðstæðum í einangrunarhúsum, til dæmis er fátt um matarsendingar.


Tengdar fréttir

Skima milljónir eftir hóp­smit á skemmti­stað

Allir íbúar Chaoyang-hverfisins í Peking verða skimaðir eftir að Covid-19 hópsmit kom upp á skemmtistað í hverfinu. Íbúar hverfisins eru rúmlega þrjár milljónir talsins.

Ör­vænting og ringul­reið í Sjang­hæ vegna far­aldursins

Mikil ringulreið hefur gripið um sig í Sjanghæ í Kína vegna kórónuveirufaraldursins. Útgöngubann stóð yfir í tvær vikur en sumum var hleypt út í fyrsta skipti nú í vikunni. Fólk flykktist í matvöruverslanir og kepptist við að ná matvörum og nauðsynjavörum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.