Fótbolti

Hallgrímur: Við erum bara í þessari toppbaráttu

Hallgrímur Jónasson var eðlilega ánægður með lærisveina sína. 
Hallgrímur Jónasson var eðlilega ánægður með lærisveina sína.  Vísir/Hulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA, var ánægður með 3-0 sigur sinna manna gegn ÍA á Greifavellinum á Akureyri í dag. Arnar Grétarsson, aðalþjálfari liðsins, tók út sinn annan leik af fimm leikja banni sem hann hefur verið dæmdur í.

„Við byrjuðum ekki alveg nógu sterkt. Skaginn voru flottir til að byrja með, sterkir í návígjunum og með smá yfirhönd svona fyrstu mínúturnar en svo komumst við inn í leikinn og erum bara hægt og rólega að koma okkur í betri stöður. Fáum nokkur færi í fyrri hálfleik, mjög góð, sem við hefðum getað klárað og ég man eftir einu flottu færi hjá þeim þannig að þetta var svona frekar jafnt í fyrri hálfleik. 

Svo breytist leikurinn náttúrulega við það að við erum að sleppa í gegn og þeir taka okkur niður og verða einum færri og þá vissum við að þetta yrði þolinmæðisvinna í seinni hálfleik. Leikurinn breytist og við töluðum um ákveðna hluti til þess að opna þá, þetta yrði þolinmæðisvinna, vera duglegir í efstu línu að hlaupa djúpt og einhverjir að mæta og ef við myndum gera þetta vel þá erum við með gæðin til að opna þá og það tókst sem betur fer.”

Leikurinn varð mjög daufur um miðbik fyrri hálfleiks eða allt þar til að Skagamenn missa mann af velli og KA ekki að spila sinn besta bolta.

„Maður er aldrei kannski alveg sáttur en það er líka bara hrós á Skagamenn, þeir gera líka vel. Þeir voru mættir og voru bara erfiðir og við erum kannski ekkert sáttir með 90 mínútur en við erum mjög ánægðir með leikinn, þetta er þriðji leikurinn okkar á stuttum tíma, vorum að spila við Ægi í bikarnum. Við gerum vel, vinnum 3-0, fáum stráka inn á sem að breyta leiknum fyrir okkur og gera okkur enn þá betri þegar hinir eru orðnir þreyttir þannig við erum gríðarlega ánægðir með þennan 3-0 sigur."

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvö mörk í dag og er kominn með 13 mörk í heildina og er sem stendur markahæstur í deildinni. Hallgrímur lofaði honum í hástert í leikslok.

„Í fyrra var hann aðeins að ströggla líka líkamlega, hann er bara alltaf að bæta sig og er flottur og liðið er líka að setja hann í þá aðstöðu að hann komis í þessi færi og hann er bara búinn að standa sig frábærlega, er mjög duglegur og áræðinn og vill þetta rosalega mikið. Hann á fullt af skotum fram hjá og yfir og svona en skorar rosalega mikið og er að vinna rosalega vinnu fyrir okkur, rosaleg hlaupageta, þannig við erum bara gríðarlega ánægðir með hann.”

KA fer með sigrinum í 2. sæti deildarinnar en Víkingur í þriðja sætinu á tvo leiki til góða á KA. Eru norðanmenn að horfa í titilbaráttu?

„Við erum bara í þessari toppbaráttu eins og við erum að spila núna og ef við höldum því áfram erum við bara þar. Við eigum þau bæði fyrir ofan okkur (Víking og Breiðablik) eftir á heimavelli en við erum svo sem bara mest að spá í því sem er að gerast núna. 

Við erum að spila vel og það er ástæða fyrir því, menn eru að leggja sig fram og við erum með allskonar týpur á vellinum sem gefa okkur hver sína hluti og við verðum bara að halda áfram því að þetta er fljótt að breytast ef menn fara að slaka eitthvað á. Við einbeitum okkur bara að því að gera þetta vel og halda áfram, það er góður taktur í liðinu og bara klárir í næsta leik.”

„Ég get ekki sagt þér hvenær svörin koma, ég er mjög lítið inni í þessu máli, en við áfrýjuðum og vonumst til að þetta verði stytt. Við vonum bara að þetta verði tekið til greina og bannið stytt en þangað til vinnum við þetta bara svona, þetta gengur bara fínt og allt í orden”, sagði Hallgrímur að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.