Haaland ekki á meðal marka­skorara er City skoraði fjögur

Haaland lagði upp eitt en skoraði ekki neitt.
Haaland lagði upp eitt en skoraði ekki neitt. Getty Images

Manchester City átti ekki í vandræðum með nýliða Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag en City vann mjög sannfærandi 4-0 sigur.

Ilkay Gundogan kom heimamönnum yfir á 18. mínútu leiksins eftir samleik við markahrókinn Erling Haaland. Gundogan gaf boltann á Haaland sem stóð við enda vítateigs og fékk hann aftur frá Haaland beint í hlaupaleið sína inn í vítateig þaðan sem Gundogan skoraði gott mark.

Kevin De Bruyne tvöfaldaði forskot City á 31. mínútu með utanfótarskoti við vítateigshorn Bournemouth. Phil Foden lagði upp mark De Bruyne en sá síðarnefndi launaði Foden greiðan þegar De Bruyne átti stoðsendingu í marki Foden á 37. mínútu leiksins.

Hálfleikstölur voru því 3-0 og eina spurningin fyrir síðari hálfleik var hve mörg mörk City myndi skora. Heimamenn tóku þó fótinn af bensíngjöfinni í síðari hálfleik og tóku ekki óþarfa áhættur.

Fjórða mark og síðasta mark City var sjálfsmark frá Jefferson Lerma á 79 mínútu. Lerma gat lítið gert í því þegar hann fékk boltann í sig og þaðan í netið eftir afar laglegan undirbúning Joao Cancelo af vinstri vængnum.

Meira var ekki skorað en Englandsmeistarar Manchester City halda því hreinu annan leikinn í röð og fara á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sex stig og sex mörk í plús í markatölu. Bournemouth er eftir tapið í níunda sæti með 3 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira