Gerrard hafði betur gegn Lampard

Atli Arason skrifar
Gerrard og Lampard takast í hendur eftir leikslok á Villa Park í dag. 
Gerrard og Lampard takast í hendur eftir leikslok á Villa Park í dag.  Getty Images

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, er kominn með liðið sitt aftur á sigurbraut eftir að Villa tapaði gegn nýliðum Bournemouth í fyrstu umferð. Í dag hafði Gerrard og hans menn betur gegn lærisveinum Frank Lampard í Everton með 2-1 sigri.

Danny Ings kom Aston Villa á bragðið með marki á 31. mínútu leiksins en hann setti boltann í netið eftir undirbúning Ollie Watkins.

Heimamenn urðu fyrir áfalli á 60. mínútu þegar stærsta stjarna þeirra, Phillipe Coutinho, varð að fara meiddur af velli. Inn í stað Coutinho kom Emiliano Buendia en það var Buendia sem sá til þess að stigin þrjú færu til Villa með marki á 88. mínútu.

Villa menn unnu boltann þá af Everton á miðsvæðinu og brunuðu í snögga sókn. Buendia og Watkins léku boltanum sín á milli og sptengdu upp vörn Everton sem endaði á því að Watkins lagði boltann þvert fyrir mark gestanna á Buendia sem gat ekki annað en stýrt knettinum auðveldlega í netið fyrir framan opnu marki.

Gestirnir frá Liverpool leyfðu heimamönnum þó að svitna vel á loka mínútunum því þeir voru ekki nema eina mínútu að minnka muninn aftur niður í eitt mark.

Amadou Onana, nýjasti leikmaður Everton, átti þá sprett upp vinstri vænginn og kom boltanum fyrir markið þar sem Lucas Digne, leikmaður Villa og fyrrum leikmaður Everton, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Onana hafði komið inn af varamannabekk Everton einungis sex mínútum áður.

Everton fékk a.m.k. þrjú fín færi til að jafna leikinn í uppbótartíma leiksins, sem taldi alls 10 mínútur, en inn vildi boltinn ekki og Aston Villa vann 2-1 sigur.

Var þetta fyrsti sigur Villa á tímabilinu en Everton er á sama tíma stigalaust eftir tap í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira