Fótbolti

Brasilíumenn neita að spila leikinn við Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu gætu farið langt á HM í ár.
Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu gætu farið langt á HM í ár. AP/Jean-Francois Badias

Brasilíumenn hafna því að spila aftur leikinn á móti Argentínu í undankeppni HM sem var aflýst fyrir ári síðan eftir aðeins sex mínútna leik.

Úrslitin í leiknum skipta í raun ekki máli því báðar þjóðir hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppni HM í Katar.

Leikurinn var samt settur á í næsta mánuði en Brasilíumenn segja ástæðuna fyrir neitun sinni vera að það sé of mikil áhætta að spila þennan leik þegar svona stutt er í heimsmeistaramótið í Katar sem hefst í nóvember.

Leikurinn var stöðvaður af heilbrigðisstarfsmönnum á svæðinu eftir að fjórir leikmenn Argentínumanna höfðu fengið jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.

Alþjóða knattspyrnusambandið krafðist þess að leikurinn færi fram og sektaði knattspyrnusambönd beggja þjóða. Bæði knattspyrnusamböndin fóru með málið fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn sem dæmir í málinu seinna í þessum mánuði.

Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu, vill ekki spila leikinn af ótta við meiðsli, leikbönn og möguleikann á því að Argentínumenn sniðgangi leikinn. Þetta segir Ednaldo Rodrigues, forseti brasilíska knattspyrnusambandsins.

Á HM í Katar er Brasilía í riðli með Serbíu, Sviss og Kamerún en Argentína er í riðli með Mexíkó, Póllandi og Sádí-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×