Fótbolti

Elín Metta: Vorkenni Pétri að þurfa að velja liðið

Atli Arason skrifar
Elín Metta, leikmaður Vals.
Elín Metta, leikmaður Vals. Vísir/Vilhelm

Landsliðsframherjinn Elín Metta Jensen minnti heldur betur á sig þegar hún skoraði þriðja mark Vals í 0-5 sigri í Keflavík. Markið skoraði Elin eftir að hafa verið inn á leikvellinum í rétt rúma mínútu.

Elín Metta byrjaði annan leikinn í röð á varamannabekknum en kom inn á völlinn á 63. mínútu leiksins og skoraði á þeirri 64. Elín er að komast aftur í sitt besta form eftir meiðsli og veikindi en hún finnur til með Pétri þjálfara.

„Pétur ákveður hvernig liðið er. Við erum með fáránlega marga góða leikmenn þannig ég vorkenni honum að þurfa að velja liðið,“ sagði Elín Metta í viðtali við Vísi eftir leik.

„Mér finnst ég vera í góðu formi, það er gaman að geta komið inn á og hjálpað liðinu þannig. svo þegar ég er tilbúin í meira þá verð ég alveg klár fyrir það,“ bætti hún við.

Þriðja mark Vals sem Elín skoraði var afar laglegt en Elín skoraði það með sínum fyrstu snertingum í leiknum.

„Lára spilaði frekar góðum bolta inn í gegn á mig og ég náði að koma boltanum í netið. Ég tók smá séns með því að vippa boltanum yfir markvörðinn, ég fékk fyrst smá í magan en hann fór sem betur fer í netið,“ sagði Elín með stórt bros á vör.

Eins og stundum áður þá var hávaðarok í Keflavík sem hafði töluvert áhrif á leikinn en Elín gat alls ekki kvartað.

„þetta er uppáhalds veðrið mitt að spila fótbolta í. Smá rigning og svona baráttu vindur þar sem maður þarf að hafa fyrir hlutunum, það er skemmtilegt.“

„Það hjálpaði að byrja leikinn með vindinn í bakið. Við náðum yfirhöndinni frekar fljótlega og gott að ná inn mörkum strax í fyrri hálfleik. Svo vorum við með góðar skiptingar og héldum áfram að skora sem er frábært.“

„Þetta var geggjaður sigur. Mér fannst við allar standa okkur vel í dag, bæði þær sem byrjuðu leikinn og þær sem komu inn á,“ sagði Elín Metta Jensen, leikmaður Vals.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×