Fótbolti

Diljá lánuð til Norrköping: „Vonast til að geta skorað nokkur mörk“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Diljá Ýr Zomers er mætt til Norrköping.
Diljá Ýr Zomers er mætt til Norrköping. Twitter/@IFKNorrköping

Knattspyrnukonan Diljá Ýr Zomers hefur verið lánuð frá sænska úrvalsdeildarfélaginu BK Häcken til Norrköping í sænsku B-deildinni.

Þessi tvítugi leikmaður verður á láni hjá Norrköping út tímabilið, en liðið er í harðri baráttu um sæti í efstu deild. Norrköping situr í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig eftir 15 leiki, þremur stigum frá umspilssæti.

Diljá hefur fengið fá tækifæri með Häcken á yfirstandandi leiktíð, en hún hefur aðeins komið við sögu í sex leikjum þar sem hún hefur skorað eitt mark. Á seinasta tímabili lék hún 14 leiki og skoraði í þeim sex mörk.

„Það er gott að vera komin hingað og ég hlakka til að byrja,“ sagði Diljá í viðtali við Norrköping sem birtist á Twitter-síðu liðsins.

„Ég myndi segja að ég sé sókndjarfur leikmaður sem býr yfir miklum hraða ásamt tækni. Ég vonast til að geta komið með fagmennsku inn í liðið, komandi frá Häcken sem er náttúrulega toppklúbbur. Ég kem líka með hraða í sóknarleikinn, góða ákvarðanatöku og vonast til að geta skorað nokkur mörk.“

„Ég vonast til að geta þróað minn leik og hjálpað liðinu að ná sínum markmiðum og vinna sér inn sæti í efstu deild.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.