Fótbolti

Brynjar Björn hafði betur gegn fyrrverandi lærisveini

Hjörvar Ólafsson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson vann mikilvægan sigur í kvöld. 
Brynjar Björn Gunnarsson vann mikilvægan sigur í kvöld.  Mynd/Örgryte

Örgryte, lið Brynjars Björns Gunnarsson, hafði betur með einu marki gegn engu þegar liðið sótti Valgeir Valgeirsson og félaga hans hjá Örebro heim í sænsku B-deildinni í fótbolta karla í dag. 

Valgeir Valgeirsson sem lék undir stjórn Brynjars Björns hjá HK var í byrjunarliðinu hjá Örebro í fyrsta skipti í þessum leik en Valgeir kom til sænska liðsins frá Kórnum á dögunum. 

Þetta var annar leikur Valgeirs fyrir Örebro en hann kom inná í tapi gegn Brommapojkarna í síðustu viku. Axel Óskar Andrésson sem skoraði mark Örebro í leiknum á móti Brommapojkarna sat allan tímann á varamannabekknum í þessum leik. 

Örgryte var þarna að næla sér í mikilvæg stig í baráttu sinni um að forðast fall úr deildinni. Liðið hefur nú 17 stig eftir jafn marga leiki og komst upp í 14. sæti deildarinnar með þessum sigri. 

Liðin sem hafna í 13. og 14. sæti fara í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. Þau lið sem enda í 15. og 16. sæti falla hins vegar niður um deild.  

Örebro er hins vegar í níunda sæti deildarinnar með 23 stig. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.