Fótbolti

Sjáðu hjól­hestinn hjá Messi í drauma­byrjun hans á nýju tíma­bili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Neymar fagna öðru markanna sem Messi skoraði fyrir Paris Saint-Germain um helgina.
Lionel Messi og Neymar fagna öðru markanna sem Messi skoraði fyrir Paris Saint-Germain um helgina. EPA-EFE/Mohammed Badra

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi hóf um helgina annað tímabil sitt í frönsku deildinni og það er óhætt að segja að hann hafi byrjað það á eftirminnilegan hátt.

Messi skoraði nefnilega tvö mörk og lagði upp eitt í 5-0 sigri Paris Saint Germain á Clermont Foot.

Messi fékk talsverða gagnrýni á sig á fyrsta tímabili sínu með Parísarliði en hann skoraði bara sex deildarmörk samtals allt síðasta tímabil. Messi náði því þriðjungi þeirra strax í fyrsta leik á þessari leiktíð.

Það er þó sérstaklega annað marka hans í leiknum sem stal flestum fyrirsögnum eftir leikinn. Messi skoraði markið með laglegri hjólhestaspyrnu sem sjá má hér fyrir neðan.

Neymar skoraði einnig í leiknum og gaf að auki tvær stoðsendingar en eins og Messi þá hefur orðræðan oft verið mun jákvæðari í kringum hann en síðustu mánuði.

Þeir félagar voru frábærir saman hjá Barcelona á sínum tíma og andstæðingar PSG þurfa að hafa miklar áhyggjur ef Messi og Neymar verða báðir í stuði á þessu tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.