Fótbolti

Grátlegt tap Venezia eftir tvö mörk Hilmis í lokin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hilmir Rafn Mikaelsson sneri taflinu við á mettíma en það dugði skammt.
Hilmir Rafn Mikaelsson sneri taflinu við á mettíma en það dugði skammt. veneziafc.it

Hinn 18 ára gamli Hilmir Rafn Mikaelsson hélt hann hefðu tryggt ítalska B-deildarliðinu Venezia framlengingu þegar hann skoraði tvö mörk í lok leiks liðsins við Ascoli. Svo var hins vegar ekki.

Þrír Íslendingar komu við sögu er Venezia mætti Ascoli í dag. Bjarki Steinn Bjarkason byrjaði á miðju liðsins sem lenti 2-0 undir eftir mörk Dario Saric og Marcello Falzerano.

Hilmir Rafn og hinn 19 ára gamli Kristófer Jónsson komu báðir inn af bekk Venezia snemma í síðari hálfleik en það virtist sem öll von væri úti fyrir liðið eftir mark Falzerano á 70. mínútu.

Hilmir Rafn skoraði hins vegar fyrir Venezia á 88. mínútu og bætti öðru marki við aðeins mínútu síðar til að jafna leikinn 2-2.

Það stefndi allt í framlengingu en Frakkinn Noah Baudouin varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma sem tryggði Ascoli 3-2 sigur.

Venezia er því úr leik í bikarnum en Hilmir Rafn hefur leiktíðina hins vegar frábærlega og vel má vera að Íslendingarnir þrír fái nokkuð stór hlutverk hjá liðinu í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×