Erlent

Uri Geller segir skoska einka­eyju sína vera sjálf­stæða smá­þjóð

Bjarki Sigurðsson skrifar
Uri Geller er ansi umdeildur í Bretlandi.
Uri Geller er ansi umdeildur í Bretlandi. EPA/Atef Safadi

Hinn umdeildi töframaður, sjónvarpsmaður og sjáandi, Uri Geller, heldur því fram að eyja við strendur Skotlands sem er í hans eigu sé nú orðin að smáþjóð (e. micronation). Hann keypti eyjuna árið 2009 en smáþjóðin mun á næstunni fá sinn eigin þjóðsöng, fána og stjórnarskrá.

Eyjan ber heitið Lamb og er um fimm ferkílómetrar að stærð. Geller keypti hana fyrir þrjátíu þúsund pund, rúma fjóra og hálfa milljón króna, á uppboði árið 2009. Í viðtali sagðist hann alltaf hafa viljað eignast eyju en hann taldi á þeim tíma að fjársjóður væri grafinn á eyjunni. Eyjan er hins vegar friðuð og ekki er leyfilegt að grafa á henni á meðan hún er hluti af Skotlandi. Fjársjóðurinn er því enn ófundinn.

Geller heldur því fram að hann geti beygt skeiðar með huganum.EPA/Bruno Bebert Corbis

Til eru fjölmargar smáþjóðir um allan heim, til dæmis Sjáland undan ströndum Bretlands sem er sjóvirki með þyrlupalli, Rósaeyja í Adríahafi sem var manngerð eyja sem var sprengd ári eftir að hún var byggð og keisaradæmið Atlantium í Ástralíu. Nú hefur Lambeyja bæst í hóp smáþjóða.

Það sem aðgreinir smáþjóðir frá öðrum ríkjum er að þær skortir alla viðurkenningu annarra ríkja eða helstu alþjóðastofnanna. Rétt er að taka fram að í íslenskri tungu þýðir orðið einnig þjóð sem er smá, samanber Smáþjóðaleikarnir, en þær þjóðir sem taka þátt í leikunum eru þó viðurkenndar af flestum ríkjum heims.

Hver sem er mun geta sótt um ríkisborgararétt hjá Lambeyju, þó gegn gjaldi. Samkvæmt BBC munu allar tekjur renna til ísraelsku hjálparsamtakanna Save a Child‘s Heart sem aðstoða börn með hjartasjúkdóma um allan heim. Geller sjálfur er fæddur og uppalinn í Ísrael en hann hefur ekki búið þar síðan árið 1971.

Lambeyja er um tvo kílómetra austur af Fidraeyju sem er sögusvið bókarinnar Fjársjóðseyjan eftir Robert Stevenson. Fidraeyja er líkt og Lambeyja friðuð og því ekki vitað hvort Stevenson hafi haft rétt fyrir sér um hvort fjársjóð megi finna á eyjunni eða ekki.

Það er þó ekki einungis fjársjóður sem gæti leynst á Lambeyju þar sem Geller heldur því fram að bein fórnarlamba Norður-Berwick nornaréttarhaldanna frá tíunda áratug sextándu aldar séu grafin á eyjunni. Sérfræðingar telja þó að beinin séu grafin nálægt þeim stað sem meintu nornirnar voru brenndar.

Geller ákvað að gera eyjuna að smáþjóð eftir að honum var neitað um að verða barón. Í gegnum tíðina hafa eigendur eyjunnar verið barónar en samkvæmt BBC var þeirri hefð hætt þegar Geller keypti eyjuna.

„Ég gat ekki orðið barón svo ég ákvað að gera betur og stofna mitt eigið ríki. Það sem gerir þetta mun meira sérstakt eru allar þessar sterku, þýðingarmiklu andlegu tengingar. Þetta er enginn venjulegur staður,“ segir Geller.

Engin bryggja er á eyjunni og ekki hægt að geyma bát sinn þar nema uppi á landi. Því hefur eyjan oft verið kölluð sjálfsvígseyja þar sem erfitt er að komast af henni.

Eyjan komst í fréttirnar fyrr í sumar þegar það þurfti 35 leiðangra þangað til þess að drepa eina rottu sem hafði komið sér fyrir þar. Geller vildi ekkert með hana hafa en það gekk illa að finna hana.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.