Fótbolti

Ótrúlegt tap Þorleifs og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hector Herrera og Þorleifur þurftu að sætta sig við tap í nótt.
Hector Herrera og Þorleifur þurftu að sætta sig við tap í nótt. vísir/Getty

Þorleifur Úlfarsson og félagar hans í Houston Dynamo máttu þola ótrúlegt 2-1 tap er liðið heimsótti Vancouver Whitecaps í MLS-deildinni í nótt.

Þorleifur var í byrjunarliði Houston-liðsins, en það var Fafa Picault sem kom liðinu yfir strax á sjöttu mínútu eftir stoðsendingu frá Sam Junqua.

Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 0-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Raunar leit lengi vel út fyrir að þetta yrði eina mark leiksins, en heimamenn í Vancouver Whitecaps jöfnuðu metin í 88. mínútu með marki frá Simon Becher sem hafði komið inn á sex mínútum áður.

Það var svo annar varamaður, Lucas Cavallini, sem tryggði heimamönnum sigurinn með marki á annarri mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því 2-1 sigur Vancouver Whitecaps sem situr nú í tíunda sæti Vestudeildar MLS-deildarinnar með 30 stig eftir 24 leiki. Þorleifur og félagar sitja hins vegar tveimur sætum neðar með 25 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.