Fótbolti

Stuðningsmenn Arsenal og Tottenham bjartsýnastir en Chelsea svartsýnastir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arsenalmenn eru bjartsýnir eftir komu Jesus.
Arsenalmenn eru bjartsýnir eftir komu Jesus. vísir/Getty

Könnun á meðal stuðningsmanna liða í ensku úrvalsdeildinni sýnir gríðarlega bjartsýni á meðal félaganna tveggja í Norður-Lundúnum, Arsenal og Tottenham. Stuðningsmenn granna þeirra í Chelsea eru öllu svartsýnari.

Mikið hefur borið á bjartsýni á meðal Arsenal-manna á samfélagsmiðlum síðustu vikur en liðið lenti í fimmta sæti deildarinnar í fyrra. Mikel Arteta hefur styrkt liðið í sumar með kaupum á bæði Oleksandr Zinchenko og Gabriel Jesus frá Manchester City.

Tottenham fékk stigi meira en Arsenal og lenti í fjórða sæti. Antonio Conte fékk heilt undirbúningstímabil með liðinu í ár, annað en í fyrra, og hefur náð prýðisárangri hvert sem hann hefur farið. Hann hefur fengið mikinn fjárhagslegan stuðning í sumar en Ivan Perisic, Yves Bissouma, Djed Spence og Richarlison eru á meðal leikmanna sem hafa verið keyptir.

Listi yfir bjartsýni stuðningsmanna liða í ensku úrvalsdeildinni.Skjáskot/The Athletic

97 prósent stuðningsmanna beggja liða eru bjartsýnir fyrir komandi leiktíð. Stuðningsmenn Newcastle United og Manchester City eru á svipuðum slóðum en 96 prósent þeirra eru bjartsýnir, þá eru 94 prósent stuðningsmanna Crystal Palace og Nottingham Forest bjartsýnir, og 93 prósent Brighton-manna.

86 prósent stuðningsmanna Liverpool eru bjartsýnir en 72 prósent stuðningsmanna Manchester United eftir komu Erik ten Hag.

Chelsea er næst neðst á listanum, en Roman Abramovich neyddist til að selja félagið í vor. Aðeins 33 prósent stuðningsmanna þeirra eru bjartsýnir en aðeins stuðningsmenn Bournemouth eru svartsýnari - 27 prósent þeirra eru bjartsýnir.

Keppni í deildinni hefst nú klukkan 19:00 í kvöld með leik Crystal Palace og Arsenal.

Heildarlistann má sjá á myndinni að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×