Vítamark Jorginho dugði gegn lærisveinum Lampards

Jorginho skoraði örugglega úr vítinu.
Jorginho skoraði örugglega úr vítinu. Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Chelsea vann nauman 1-0 útisigur á Everton er liðin áttust við á Goodison Park í Liverpool í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Alvarleg meiðsli Ben Godfrey, miðvarðar Everton, snemma leiks settu ákveðinn skugga á leikinn en hann tafðist um rúmar níu mínútur vegna þeirra og var Godfrey borinn af velli.

Uppbótartíminn í fyrri hálfleik var því umtalsverður en í þeim uppbótartíma gerðist Abdoulaye Doucouré brotlegur á vinstri bakverðinum Ben Chilwell innan teigs Everton. Vítaspyrna var dæmd og úr henni skoraði Ítalinn Jorginho af öryggi.

Fátt var um fína drætti í síðari hálfleiknum en aftur varð uppbótartíminn umtalsverður. Stöðva þurfti leikinn um tíma vegna þess að stuðningsmaður þurfti á læknishjálp að halda. Frekari fregnir af heilsufari stuðningsmannsins hafa ekki borist.

Þrátt fyrir tíu mínútna uppbótartíma tókst Everton ekki að jafna leikinn og lauk honum því 1-0 fyrir Chelsea sem hefur mótið á sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira