Erlent

Ítrekaði stuðning Bandaríkjanna við Taívan og skaut á forseta Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nancy Pelosi og Tsai Ing-wen.
Nancy Pelosi og Tsai Ing-wen. AP

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, hét áframhaldandi stuðningi Bandaríkjanna við Taívan í opinberri heimsókn sinni þar í gær. Pelosi fundaði meðal annars með Tsai Ing-wen, forseta Taívan, sem hét því að láta ekki undan hernaðarlegum hótunum Kína.

Stjórnvöld í Kína eru æf vegna heimsóknar Pelosi, sem sagðist á blaðamannafundi í gær furða sig á viðbrögðum Kínverja. Hún sagði mikilvægt að senda skýr skilaboð; stjórnvöld í Bandaríkjunum væru staðföst í því að tryggja öryggi Taívan, þar sem ríkin deildu gildum er vörðuðu lýðræðið og frelsi. 

Gerði hún því skóna að viðbrögð forseta Kína mætti rekja til pólitískrar stöðu hans heima fyrir.

Heimsókn Pelosi hefur bæði verið hampað og gagnrýnd í Bandaríkjunum en John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, benti á það í fyrradag að heimsóknir bandarískra embættismanna til Taívan væru langt í frá fordæmalausar. 

Kínverjar hyggjast hins vegar svara heimsókninni með heræfingum umhverfis Taívan, sem stjórnvöld á eyjunni segja brjóta gegn alþjóðalögum.

Pelosi sagði sendinefnd sína vilja gera það fullkomlega ljóst að Bandaríkin myndu ekki hverfa frá stuðningi sínum við Taívan og að Bandaríkjamenn væru stoltir af vinskap sínum við Taívani. Kirby ítrekaði hins vegar á blaðamannafundinum í fyrradag að Bandaríkin hefðu alls ekki horfið frá afstöðu sinni varðandi eitt Kína.

Pelosi sagði einnig að Kínverjar hefðu staðið í vegi fyrir þátttöku Taívan á ýmsum fundum en þeir myndu ekki geta komið í veg fyrir heimsóknir erlendra embættismanna. Sagði hún stjórnvöld í Kína vera gera úlfalda úr mýflugu, ef til vill vegna stöðu hennar sem forseta fulltrúadeildarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.