Fótbolti

Elías Rafn og félagar í erfiðri stöðu eftir stórt tap

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson og félagar eru í erfiðri stöðu.
Elías Rafn Ólafsson og félagar eru í erfiðri stöðu. Getty/Jose Manuel Alvarez

Elías Rafn Ólafsson og félagar hans í danska liðinu Midtjylland máttu þola 4-1 tap er liðið heimsótti Benfica í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Elías stóð vaktina í marki Midtjylland í kvöld, en heimamenn í Benfica tóku forystuna strax á 17. mínútu með marki frá Goncalo Ramos.

Ramos var svo aftur á ferðinni um stundarfjórðungi síðar þegar hann kom heimamönnum í tveggja marka forystu áður en Enzo Fernandez breytti stöðunni í 3-0 stuttu fyrir hálfleik.

Heimamenn komust svo í 4-0 þegar Goncalo Ramos fullkomnaði þrennu sína eftir um klukkutíma leik, en Pione Sisto klóraði í bakkann fyrir danska liðið rúmum tíu mínútum fyrir leikslok með marki af vítapunktinum.

Lokatölur urðu 4-1 og Elías og félagar eiga því erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðin mætast í Danmörku að viku liðinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.