Innlent

Átta líkams­á­rásir og tvö kyn­ferðis­brot til­kynnt eftir Þjóð­há­tíð

Fanndís Birna Logadóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Herjólfsdalur fylltist af gestum um helgina.
Herjólfsdalur fylltist af gestum um helgina. Vísir/Sigurjón

Átta líkamsárásir og tvö kynferðisbrotamál hafa verið skráð hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í tengslum við nýafstaðna Þjóðhátíð. Heildarmálafjöldi frá fimmtudegi til mánudags er mjög áþekkur því sem var í kringum Þjóðhátíð á árunum 2018 og 2019 en tilkynnt hefur verið um ívið færri líkamsárásir og ofbeldisbrot. Þetta sýna bráðabirgðatölur lögreglunnar.

„Það er auðvitað þekkt varðandi kynferðisbrotin að þau eru gjarnan tilkynnt eftir á, þannig það er í sjálfu sér ekki hægt að skoða niðurstöðuna fyrr en einhver tími er liðinn,“ segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.

Hann segir að Þjóðhátíð hafi á heildina litið gengið nokkuð vel þetta árið miðað við þann gríðarlega fjölda fólks sem lagði leið sína í Herjólfsdal.

Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri á Suðurlandi. Vísir

„Þessi þjóðhátíð var ívið rólegri ef það eru skoðaðar tölur, og það er svona tilfinning lögreglu að það var minni erill og þá sérstaklega föstudags og sunnudagskvöld.“ Að venju náði Þjóðhátíð vissum hápunkti á sunnudagskvöld og náði gestafjöldinn þá hámarki. 

Grímur segir að það hafi verið erfitt að spá í spilin eftir að tvö ár án Þjóðhátíðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

„Við svo sem vissum ekki við hverju við ættum að búast, síðastliðin tvö ár hafa verið skrítin en þetta var bara nokkuð gott. Við erum alla vega tiltölulega sátt svona í heildina séð.“


Tengdar fréttir

Einhver kynferðisbrot tilkynnt eftir helgina en of snemmt að bera saman við fyrri ár

Ofbeldisbrot um verslunarmannahelgina virðast við fyrstu sýn álíka mörg og fyrir faraldur að sögn verkefnastjóra aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra. Einhver kynferðisbrot hafi komið á borð lögreglu en hafa þurfi í huga að þau séu yfirleitt tilkynnt seinna. Þá sé sumarið ekki búið og stórir viðburðir fram undan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×