Erlent

Reyndu að færa lík Johns Snorra í tvær klukku­stundir

Eiður Þór Árnason skrifar
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi.
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi. Lífsspor K2

Jarðneskar leifar Johns Snorra Sigurjónssonar liggja á einum erfiðasta staðnum á fjallinu K2 og illa hefur gengið að færa þær af gönguleiðinni. Nýfallinn snjór skapar snjóflóðahættu á umræddu svæði og hamlar aðgerðum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldu Johns Snorra en hluti hennar er nú staddur í Pakistan. Vonaðist hún til þess að hægt yrði að flytja líkið nær samferðamönnum hans Ali og Juan Pablo sem fórust einnig á fjallinu í febrúar 2021. Teymi sem samanstendur af fjórum fjallgöngumönnum reyndi að færa lík Johns Snorra í tvær klukkustundir án árangurs.

„Það að flytja hann hefði getað skapað alvarlega öryggishættu fyrir þá yfir 150 einstaklinga sem ætla að klífa K2 í sumar.“ Fjölskyldan bíði eftir frekari upplýsingum um aðstæður á svæðinu áður en hún kanni næstu skref.

Vildu þakka fyrir alla veitta aðstoð og stuðning

Fjölskyldan leggur áherslu á að hún vilji ekki á neinn hátt stefna öryggi fjallgöngumanna sem koma að verkefninu í hættu. Í yfirlýsingu þakkar Lína Móey, ekkja Johns Snorra, pakistönsku þjóðinni fyrir hlýjar móttökur og veitta aðstoð.

Hún segir að vinátta Johns Snorra og hins pakistanska Ali Sadpara hafi verið mjög náin og fjölskyldan viljað heimsækja Pakistan til að þakka öllum þeim sem hafi stutt hana á þessum erfiða tíma.

„Ég trúi því innilega og veit það í hjarta mínu að John og Ali náðu á topp K2 í febrúar 2021. Það er ekki auðvelt að útskýra það sorgarferli sem ég og börnin höfum gengið í gegnum eftir fráfall Johns. Það að vera stödd hér í Pakistan er mikilvægur áfangi í okkar vegferð.“

Hún bætir við að hjónin hafi frá upphafi sambands þeirra verið samstíga í því að skapa líf sem væri þess virði að lifa og ferð Johns Snorra og Ali hafi verið hluti af því markmiði. „John hafði fullan og skilyrðislausan stuðning minn þegar kom að því að elta þann bernskudraum að að klífa K2 bæði að sumri og vetri til.“

Lína Móey hefur sagt að með því að fara til Pakistan vilji fjölskyldan ljúka leiðangri hans en hann reyndi að komast fyrstur manna upp fjallið að vetri til. Hefur Lína Móey síðustu daga meðal annars fundað með forseta Pakistan og mætt í fjölmiðlaviðtöl þar í landi. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×