Innlent

Fjöl­skylda John Snorra greinir frá missinum í pakistönskum miðlum

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi.
John Snorri og Lína Móey þegar hann kom til landsins árið 2017 eftir að hafa toppað K2 að sumarlagi. Lífsspor K2

Fjölskylda fjallagarpsins John Snorra sem fórst á fjallinu K2 á seinasta ári er komin til Pakistan til þess að ganga frá jarðneskum leifum hans. Fjölskyldan hefur farið á fund með forseta Pakistan og talað um missinn í pakistönskum fjölmiðlum.

Lína Móey, ekkja Johns Snorra, segir að með því að fara til Pakistan vilji fjölskyldan ljúka leiðangri hans en John Snorri reyndi að komast fyrstur manna upp fjallið að vetri til. Talið er að hann hafi náð á toppinn áður en hann lést.

Fjölskyldan fór á fund með forseta Pakistan, Dr Arif Alvi í dag þar sem hann vottaði þeim samúð sína.

Lína Móey, ekkja John Snorra segir í viðtali við HUM News í Pakistan að hún hafi dvalið við fjallið í margar vikur eftir að John Snorri og samferðamenn hans hurfu í þeirri von að þeir kæmu til baka heilir á húfi.

Í viðtalinu segist fjölskyldan lengi hafa haldið í vonina að John Snorri myndi koma heim. Systur John Snorra segja að komunni til Pakistan fylgi blendnar tilfinningar, þetta séu vissulega seinustu skrefin í ferlinu.

Viðtalið má sjá hér að neðan.

Lína Móey hefur áður greint frá því að fjölskyldan hafi óskað eftir því að lík John Snorra yrði fært og grafið með ferðafélögum hans, Juan Pablo Mohr og Muhammad Ali Sadpara. Sé ekki hægt að gera það verði líkið fært af gönguleiðinni upp fjallið K2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×