Fótbolti

Þjálfarinn lenti næstum því í slag við íþróttastjórann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ivan Juric er ekki sáttur við stöðu mála hjá Torino. Íþróttastjóri félagsins er hins vegar orðinn þreyttur á nöldri þjálfarans.
Ivan Juric er ekki sáttur við stöðu mála hjá Torino. Íþróttastjóri félagsins er hins vegar orðinn þreyttur á nöldri þjálfarans. getty/Sportinfoto

Litlu munaði að það kæmi til handalögmála þegar Ivan Juric, þjálfari Torino, og Davide Vagnati, íþróttastjóri félagsins, rifust í æfingaferð í Austurríki.

Myndband af deilum þeirra á bílastæði fyrir utan hótel Torino rataði á samfélagsmiðla. Þar sjást þeir Juric og Vagnati hnakkrífast og stjaka við hvorum öðrum. Meðlimur úr þjálfarateymi Torino þurfti að ganga á milli þeirra til að koma í veg fyrir frekari átök.

Juric er ekki sáttur við hversu lítið Torino hefur látið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum en Vagnati er búinn að fá sig fullsaddan af tuðinu í þjálfaranum.

„Þú notar bara liðið sem ég læt þig hafa. Skilurðu það? Ég er kominn með nóg af þér. Þú verður að sýna smá virðingu,“ sagði Vagnati í myndbandinu.

Torino hefur meðal annars misst fyrirliða sinn og aðalmarkaskorann Andrea Belotti. Á síðasta tímabili, sem var það fyrsta undir Juric, endaði Torino í 10. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×