Fótbolti

Fabregas á leið í ítölsku B-deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cesc Fabregas er á leið í ítölsku B-deildina.
Cesc Fabregas er á leið í ítölsku B-deildina. Jonathan Moscrop/Getty Images

Cesc Fabregas, fyrrum leikmaður Arsenal, Chelsea, Barcelona og spænska landsliðsins, er á leið til ítalska B-deildarliðsins Como 1907.

Þessi 35 ára leikmaður hefur undanfarin þrjú ár verið á mála hjá Monaco í frönsku úrvalsdeildinni, en hefur aðeins leikið 56 deildarleiki á þeim tíma.

Hann er nú á leið í ítölsku B-deildina ef marka má félagsskiptasérfræðinginn Fabrizio Romano. Como hafnaði í 13. sæti ítölsku B-deildarinnar á seinasta tímabili.

Fabregas fór í gegnum unglingastarf Barcelona og Arsenal. Hann varð yngsti leikmaður Arsenal frá upphafi þegar hann kom við sögu í leik liðsins gegn Rotherham í deildarbikarnum, þá aðeins 16 ára og 177 daga gamall. Hann varð einnig yngsti markaskorari Arsenal frá upphafi þegar hann skoraði í 5-1 sigri gegn Wolves, einnig í deildarbikarnum.

Alls lék Fabregas 212 deildarleiki fyrir Arsenal áður en hann færði sig til Barcelona. Þar lék hann í þrjú ár, en færði sig svo til Chelsea þar sem hann var frá 2014 til 2019. Þá á hann einnig að baki 110 leiki fyrir spænska landsliðið á tíu ára tímabili.

Fabregas hefur einnig unnið nánast alla þá titla sem hægt er að vinna í evrópsku fótbolta. Hann varð enskur meistari í tvígang, spænskur meistari einu sinni. Þá vann hann FA-bikarinn tvisvar, enska deildarbikarinn einu sinni, spænska bikarinn Copa del Rey einu sinni og spænska ofurbikarinn tvisvar. Með Chelsea vann hann einnig Evrópudeildina og með spænska landsliðinu varð hann bæði heimsmeistari árið 2010 og Evrópumeistari árin 2008 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×