Fótbolti

Stefán Teitur hafði betur gegn Elíasi Rafni er Sil­ke­borg vann ó­vænt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skagamaðurinn Stefán Teitur í leik með Silkeborg.
Skagamaðurinn Stefán Teitur í leik með Silkeborg. Lars Ronbog/Getty Images

Það var Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta er Silkeborg vann óvæntan 3-1 útisigur á Midtjylland í kvöld.

Fyrir fram mátti búast við sigri heimamanna en þeir voru í hörku baráttu um danska meistaratitilinn á síðustu leiktíð. Annað átti þó eftir að koma á daginn. 

Nicolai Vallys kom gestunum yfir eftir rúmlega hálftíma en heimamenn jöfnuðu metin skömmu síðar, markið hins vegar dæmt af vegna rangstöðu og staðan 0-1 í hálfleik.

Anders Dreyer jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks en Elías Rafn og félagar voru ekki lengi í paradís. Aðeins sex mínútum síðar hafði Anders Ferslev Klynge komið gestunum 2-1 yfir. Það var svo Nicklas Helenius sem gulltryggði sigur Silkeborgar með þriðja marki liðsins örskömmu síðar.

Leiknum lauk með 3-1 sigri Silkeborgar sem þýðir að liðið fer um stund á topp deildarinnar þar sem liðið er með fjögur stig eftir tvo leiki. Midtjylland hefur á sama tíma gert eitt jafntefli og tapað einum.

Elías Rafn Ólafsson lék allan leikinn í marki Midtjylland á meðan Stefán Teitur Þórðarson var tekinn af velli á 78. mínútu í liði Silkeborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×