Fótbolti

Jón Guðni spilar engan fótbolta á þessu ári

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Guðni Fjóluson var í vörn Íslands þegar Timo Werner og félagar í þýska landsliðinu komu á Laugardalsvöll í fyrrahaust.
Jón Guðni Fjóluson var í vörn Íslands þegar Timo Werner og félagar í þýska landsliðinu komu á Laugardalsvöll í fyrrahaust. vísir/Hulda Margrét

Fótboltalífið virtist ljúft hjá Jóni Guðna Fjólusyni í fyrrahaust og hann var á leið í leiki með íslenska landsliðinu en varð þá fyrir alvarlegum meiðslum þegar hann sleit krossband í hné. Vegna bakslags spilar hann engan fótbolta á þessu ári.

Jón Guðni er leikmaður Hammarby í Svíþjóð og sænska félagið greindi frá því í dag að þessi 33 ára miðvörður myndi ekki spila nokkurn leik með liðinu á þessari leiktíð, sem þó lýkur ekki fyrr en í nóvember.

Jón Guðni, sem á að baki 18 A-landsleiki, hafði unnið sig inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins og spilaði gegn Þjóðverjum í september á síðasta ári, rétt áður en krossbandið slitnaði. Misjafnt er hve langan tíma tekur að jafna sig af slíkum meiðslum en algengt er að það taki 6-9 mánuði eftir aðgerð.

„Snemma í endurhæfingarferlinu kom bakslag hjá honum [Jóni] sem kallaði á tvö inngrip í hnéð til viðbótar. Jón er farinn að geta aukið álagið í endurhæfingunni en hann kemur ekki til með að geta spilað á yfirstandandi leiktíð,“ segir í tilkynningu Hammarby í dag.

Samningur Jóns Guðna við Hammarby gildir til ársloka 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×