Innlent

Stór­kost­legar breytingar fyrir­hugaðar í kring um Hlemm

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Svona mun Hlemmur líta út eftir nokkur ár ef allt fer samkvæmt áætlun.
Svona mun Hlemmur líta út eftir nokkur ár ef allt fer samkvæmt áætlun. Mandaworks/DLD

Framkvæmdir við fyrsta áfanga að nýju Hlemmtorg eru hafnar á hluta Rauðarárstígs. Hlemmur og nærliggjandi götur munu taka miklum stakkaskiptum á næstu árum þar sem lokað verður fyrir almenna bílaumferð.

Samkvæmt deiliskipulagi fyrir Hlemm og nágrenni verður Rauðarárstígur að botnlanga við Gasstöðina þar sem pláss verður fyrir bíla til að snúa við, gerð verða stæði fyrir fatlaða, rafhleðslustæði, leigubílastæði og aðstaða fyrir gangandi og hjólandi. Framkvæmdirnar hófust fyrir helgi en gert er ráð fyrir að verki ljúki næsta vor en framkvæmdir við Hlemm munu þó halda áfram.

Hér má sjá breytingar sem fyrirhugaðar eru á Rauðarárstíg við gatnamót Bríetartúns. Vegurinn verður lokaður við Hlemm, þar sem bílastæði verða fyrir fatlaða og hringtorg fyrir umferð til að snúa við.VSÓ ráðgjöf

Útboð fyrir næsta áfanga er þegar hafið en það er vegkafli Laugavegar milli Hlemms og Snorrabrautar. Áfram verður þó opið um veginn í kring um Hlemm svo Strætó geti ekið þar óhindrað.

Þar á að setja niður gróður,  setsvæði, hjólastæði og óformleg leikrými auk þess sem gert verður ráð fyrir að veitingastaðir geti vaxið í göturýmið en þegar framkvæmdum lýkur verður Laugavegur milli Snorrabrautar alla leið að Katrínartúni lokaður fyrir umferð. Strætisvagnar einir munu keyra um Laugaveg frá Katrínartúni og um Hverfisgötu við Hlemm, þar sem stoppistöðvum verður komið fyrir.

Hér má sjá hvernig Hlemmtorg, sunnan við Hverfisgötu, verður afmarkað. Lokað verður á bílaumferð um Rauðarárstíg frá Stórholti, Laugaveg austur af Snorrabraut og aðeins strætisvagnar fá að aka um Hverfisgötu.Mandaworks/DLD

Auk þess verður Rauðarárstíg sunnan við Hlemm lokað að Stórholti og Þverholt verður lokað fyrir almenna umferð.

Á torginu sem myndast með þessu við Hlemm er gert ráð fyrir að rísi byggingar, með mismunandi starfsemi, og þar verði gott útisvæði fyrir gesti og gangandi.


Tengdar fréttir

Hefjast handa við fyrsta á­fanga Hlemm­torgs

Framkvæmdir á fyrsta áfanga Hlemmtorgsins svokallaða á Rauðarárstíg eru hafnar. Lokað hefur verið fyrir umferð á Rauðarárstíg frá Bríetartúni og þegar framkvæmdum lýkur verður vegurinn lokaður sunnan gömlu gasstöðvarinnar við Hlemm til frambúðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×