Innlent

Geir Sveins­son nýr bæjar­stjóri í Hvera­gerði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Geir Sveinsson mun taka við sem bæjarstjóri í Hveragerði á næstunni.
Geir Sveinsson mun taka við sem bæjarstjóri í Hveragerði á næstunni. Aðsend

Meirihlutinn í Hveragerðisbæ mun leggja fram tillögu um að Geir Sveinsson verði ráðinn sem bæjarstjóri á næsta bæjarstjórnarfundi. Geir mun hefja störf í upphafi ágústmánaðar.

Alls sóttu 23 um stöðu bæjarstjóra en fjórir drógu umsókn sína til baka. Geir var meðal umsækjenda.

Geir er fæddur 1964 og hefur verið sjálfstætt starfandi síðustu tvö ár. Hann er með MBA próf frá Háskóla Íslands auk menntunar í markaðssetningu á netinu og meistaragráðu í þjálfun. Geir þjálfaði íslenska karlalandsliðið í handbolta um tíma og hefur einnig þjálfað félagslið í Þýskalandi. Þá var hann einn af mikilvægustu leikmönnum landsliðsins í handbolta á sínum tíma.

„Auk menntunar og reynslu Geirs er hann öflugur leiðtogi og hefur farsæla reynslu af því að vinna með fólki. Það er ekki síst sá hæfileiki sem við leituðumst eftir í fari bæjarstjóra. Við erum full tilhlökkunar vegna komandi verkefna og samstarfs og bjóðum Geir og fjölskyldu velkomin í Hveragerði,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, í tilkynningu á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

Geir þakkar nýjum meirihluta Hveragerðisbæjar fyrir traust sitt á sér sem og tækifærið sem hann fær nú.

„Ég mun í góðu samstarfi við alla bæjarfulltrúa og starfsfólk Hveragerðisbæjar leggja mig allan fram við að gera góðan bæ enn betri. Tækifærin eru fjölmörg og spennandi tímar framundan í ört vaxandi og kraftmiklu sveitarfélagi sem Hveragerðisbær er,“ segir Geir.

Ráðningarsamningur við Geir tekur formlega gildi þegar hann hefur verið staðfestur af næsta bæjarráðsfundi og birtur opinberlega í kjölfarið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×