Fótbolti

Frá Man City til Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Weir er mætt til Real.
Caroline Weir er mætt til Real. Real Madrid

Caroline Elspeth Lillias Weir hefur samið við Real Madríd. Hún lék síðast með Manchester City en þetta er í fyrsta sinn sem hin 27 ára gamla Weir fer út fyrir Bretlandsteyjar til að spila.

Caroline Weir hefur verið máttarstólpi í sterku liði Manchester City undanfarin ár. Hún hefr spilað á Englandi síðan árið 2013 er hún samdi við Arsenal. Þaðan lá leiðin til Bristol City, Liverpool og svo loks Man City árið 2018.

Samningur hennar í Manchester-borg rann út nú í sumar og hefur ákveðið að róa á vit ævintýranna. Samdi Weir við Real Madríd en liðið lenti í 3. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, á síðustu leiktíð. Þá féll liðið úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Man City en liðið rétt náði 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar úr klóm nágranna sinna í Manchester United. Blái hluti Manchester-borgar komst þar með í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en það dugði þó ekki til að halda Weir.

Hún leikur nær alltaf sem framliggjandi miðjumaður og á að baki 88 A-landsleiki fyrir Skotlands hönd. Þá hefur hún skorað 14 mörk fyrir þjóð sína. Er Weir fyrsti Skotinn til að spila fyrir Real Madríd á þessari öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×