Fótbolti

Fullyrða að Hörður Björgvin sé á leið til Panathinaikos

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon er á leið til Panathinaikos.
Hörður Björgvin Magnússon er á leið til Panathinaikos. VÍSIR/VILHELM

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er að öllum líkindum á leið til Grikklands þar sem hann mun skrifa undir tveggja ára samning við Panathinaikos.

Það er Fótbolti.net sem greinir frá þessu, en vefmiðillinn segist hafa öruggar heimildir fyrir þessu.

Hörður Björgvin yfirgaf rússneska liðið CSKA Moskvu á dögunum eftir að hafa leikið með liðinu í fjögur ár, en hann er nú á leið til Grikklands.

Samkvæmt heimildamönnum Fótbolta.net höfðu fleiri lið áhuga á því að fá Hörð í sínar raðir. Þar á meðal bauðst honum nýr samningur hjá CSKA Moskvu, en Hörður ákvað að halda frekar á vit nýrra ævintýra.

Panathinaikos hafnaði í fjórða sæti grísku deildarinnar á seinustu leiktíð. Þá varð liðið bikarmeistari í nítjánda sinn, en Hörður verður annar Íslendingurinn til að spila fyrir félagið. Helgi Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Vals, lék með liðinu frá 1999 til 2001.

Þá verður Hörður ekki eini Íslendingurinn í grísku deildinni því markvörðurinn Ögmundur Kristinsson er leikmaður Olympiacos. Báðir eru þeir uppaldir hjá Fram og léku saman frá 2009 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×